Enski boltinn

Fleiri leikjum frestað á Englandi | Liverpool án lykilmanna gegn Chelsea?

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Jurgen Klopp.
Jurgen Klopp. vísir/getty

Búið er að taka ákvörðun um að fresta leik Southampton og Newcastle United í ensku úrvalsdeildinni vegna kórónuveirusmita í leikmannahópi Newcastle.

Leikurinn var fyrirhugaður á morgun og er því um annan leikinn að ræða sem frestað er um nýárshelgina í ensku úrvalsdeildinni því áður hafði leik Leicester og Norwich, sem átti að fara fram í dag, verið frestað.

Þrír leikir fara þó fram í dag og á morgun eru enn fjórir leikir á dagskrá. Þar á meðal er stórleikur Liverpool og Chelsea.

Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, greindi frá því á blaðamannafundi í gær að þrír leikmenn liðsins væru óleikfærir vegna smita.

„Það eru komin upp þrjú tilfelli í leikmannahópnum og nokkur í viðbót í þjálfaraliðinu svo þetta lítur ekki vel út. Við erum ekki nálægt því að fá leiknum frestað eins og er,“ sagði Klopp.

Hann, líkt og fleiri knattspyrnustjórar í deildinni hafa kvartað sáran yfir leikjaálaginu á Englandi yfir hátíðarnar og ljóst að fjölmörg lið hafa óskað eftir frestunum á undanförnum dögum til að létta á álaginu.

Ekki hefur verið staðfest hvaða leikmenn um ræðir en samkvæmt enskum fjölmiðlum voru Alisson og Roberto Firmino hvorugir á æfingu liðsins í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×