Rússar hafa um hundrað þúsund hermenn grá fyrir járnum við austurlandamærin að Úkraínu en Putin krefst þess að NATO ríkin hætti útrás sinni austur að landamærum Rússlands eins og hann kallar ósk stjórnvalda í Úkraínu um að gerast aðilar að NATO.
Pútin óskaði eftir fundinum með Biden og var þetta í annað sinn á einum mánuði sem forsetarnir ræddu saman. Putin krefst þess að NATO lýsi því yfir að Úkraína fái aldrei aðild að NATO og að hergögnum á vegum NATO verði ekki komið fyrir í fyrrverandi sovétlýðveldum sem nú eru sjálfstæð ríki og aðilar að Atlantshafsbandalaginu.
Þessum kröfum hefur Biden hafnað algerlega og hótar því að Bandaríkin og NATO þjóðir muni beita Rússa hörðum refsiaðgerðum geri þeir innrás í Úkraínu. Pútín sagði Biden á fundinum í gær að hertar refsiaðgerðir gegn Rússum gætu leitt til algers hruns í samskiptum ríkjanna.