Erlent

Sumar­hiti í Alaska: 19,4 gráður mældust á Kódía­keyju

Atli Ísleifsson skrifar
Hlýindi og rigningar um miðjan vetur hafa orðið tíðari í Alaska síðustu tvo áratugina.
Hlýindi og rigningar um miðjan vetur hafa orðið tíðari í Alaska síðustu tvo áratugina. Getty

Hitinn á Kódíakeyju í Alaska í Bandaríkjunum mældist 19,4 gráður síðastliðinn sunnudag, en aldrei áður hefur svo hár hiti mælst í ríkinu í desembermánuði. Fyrra hitamet fyrir desember var þar slegið um heilar 3,9 gráður.

Veðurstofa Bandaríkjanna segir frá þessu, en þessi mikli hiti hefur haft í för með sér gríðarlegt úrhelli á Kódíak. Á þessum árstíma hefur vanalega verið mikil snjókoma á staðnum.

Rick Thoman, sérfræðingur hjá Loftslagsmiðstöð Alaska, segir í samtali við Guardian segir það „fáránlegt“ að sjá slíkar hitatölur á staðnum. Nýja metið hafi fallið í hitabylgju þar sem meðal annars hafi mælst 18,3 gráðu hiti á flugvellinum í Kódíak og 16,6 gráðu hiti í Cold Bay á Aljútaeyjum. Þá hafi liðið átta dagar í röð þar sem hitinn fór yfir tíu gráður í bænum Aleutian á eynni Unalaska.

Thoman segist ekki hafa talið að slíkar hitatölur væru mögulegar í Alaska.

Hlýindi og rigningar um miðjan vetur hafa þó orðið tíðari í Alaska síðustu tvo áratugina og segir Thoman þetta vera merki um loftslagsbreytingar. „Þetta er nákvæmlega það sem við megum reikna með í hlýrri heimi.“

Hann segist reikna með að þróunin haldi áfram, að vetrar verði áfram kaldir en hlýrri kaflar verði tíðari.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×