Erlent

Frans páfi biður fyrir enda­lokum far­aldurs

Árni Sæberg og Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifa
Í venjulegu árferði fylla um tuttugu þúsund manns torgið fyrir framan Péturskirkju þegar páfi flytur jólaávarp.
Í venjulegu árferði fylla um tuttugu þúsund manns torgið fyrir framan Péturskirkju þegar páfi flytur jólaávarp. Vatíkanið

Frans páfi fagnaði komu jólanna í gærkvöldi fyrir framan um tvö þúsund manns í Péturskirkju í Vatíkaninu. Í predikun sinni gerði páfinn lítillæti Krists að umtalsefni sínu og hvatti fólk til að minnast þess að frelsari kristinna manna hefði komið í heiminn fátækur.

Heimsfaraldurinn bar lítið á góma í predikuninni en vegna ómíkronafbrigðsins hefur bólusetningarskyldu verið komið á fyrir starfsfólk Vatíkansins, en ekki var gerð krafa um bólusetningu messugesta í Péturskirkju í gær. Þó voru aðeins tvö þúsund manns inni í kirkjunni en hún tekur tuttugu þúsund.

„Eitt lítið barn reifum vafið og við hlið þess stóðu fjárhirðar. Þetta er staður Guðs í smæð sinni. Þetta er boðskapurinn: Guð rís ekki upp í mikilfengleika, heldur hefur lítillæti að leiðarljósi. Hann kaus leið lítillætis til að nálgast okkur, til að snerta hjörtu okkar, til að bjarga okkur og leiða okkur til baka til þess sem skiptir máli,“ sagði Frans páfi.

Hann kom aðeins inn á heimsfaraldur Covid-19 og bað fyrir því að hann tæki fljótt enda. Þá hvatti hann leiðtoga heimsins til að tryggja öllum jarðarbúum heilbrigðisþjónustu og fátækum bóluefni.

Síðustu jól neyddist páfinn til að flytja jólaávarp sitt með óhefðbundnum hætti en þá var því sjónvarpað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×