Erlent

Yfirvöld í Ísrael leggja drög að bólusetningu með fjórða skammtinum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Heilbrigðisstarfsmenn og einstaklingar 60 ára og eldri verða þeir fyrstu sem fá fjórða skammtinn.
Heilbrigðisstarfsmenn og einstaklingar 60 ára og eldri verða þeir fyrstu sem fá fjórða skammtinn. AP/Sebastian Scheiner

Heilbrigðisyfirvöld í Ísrael leggja nú drög að bólusetningarátaki sem mun miða að því að gefa landsmönnum fjórða skammtinn af bóluefnum gegn Covid-19 til að bregðast við mögulegri bylgju sýkinga af völdum ómíkron-afbrigðisins.

Stjórnvöld gáfu fyrirmæli um að hefja undirbúningin eftir að sóttvarnasérfræðingar mæltu með því að einstaklingar 60 ára og eldri og heilbrigðisstarfsmenn fengju fjórða skammtinn.

Samkvæmt heilbrigðisráðuneyti landsins hafa að minnsta kosti 340 greinst með ómíkron og einn lést með afbrigðið í gær.

Talsmenn forsætisráðherrans Naftali Bennett sögðust gera ráð fyrir að fólki yrði boðinn fjórði skammturinn þegar að minnsta kosti fjórir mánuðir væru liðnir frá þriðja skammti. 

Þrátt fyrir að hafa verið meðal fyrstu ríkja heims sem fengu nóg bóluefni til að bólusetja alla þjóðina hafa aðeins um 63 prósent íbúa verið fullbólusettir, það er að segja fengið tvo skammta. 

Ástæðan er meðal annars sú að um þriðjungur þjóðarinnar er yngri en 14 ára en yfirvöld tilkynntu í nóvember að börnum eldri en 5 ára yrði boðin bólusetning.

Stjórnvöld hafa þegar sett á ferðabann til fjölda ríkja til að hamla útbreiðslu ómíkron-afbrigðisins, meðal annast til Bandaríkjanna, Kanada, Þýskalands og Ítalíu.

Um 1,36 milljónir manna hafa greinst með Covid-19 í Ísrael og um 8.200 látist.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×