Erlent

Konur geta nú fengið „þungunar­rof­spilluna“ senda heim

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hörð barátta stendur nú yfir vestanhafs um rétt kvenna til þungunarrofs.
Hörð barátta stendur nú yfir vestanhafs um rétt kvenna til þungunarrofs. epa/Samuel Corum

Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA) hefur heimilað heimsendingu lyfs sem stuðla að þungunarrofi. Konur hafa á þessu ári getað fengið lyfið send heim vegna kórónuveirufaraldursins en undanþágan hefur nú verið gerð varanleg.

Þegar er ljóst að reglubreytingin mun ekki gagnast konum í að minnsta kosti 19 ríkjum, þar sem búið er að banna heimsendingu umrædds lyfs. 

Lyfið heitir mifepristone en „þungunarrofspillan“, eins og hún er kölluð í Bandaríkjunum, er önnur tveggja sem konur taka til að binda enda á meðgöngu og eftir fósturlát. Notkun hennar er heimil á fyrstu tíu vikum meðgöngu.

Konur munu nú geta fengið pilluna senda heima eftir að hafa rætt við heilbrigðisstarfsmann eða lyfjafræðing og fengið ráðgjöf á netinu. Stuðningsmenn segja reglubreytingu FDA mikinn létti fyrir fjölda kvenna en gagnrýnendur segja hana ógna heilbrigði kvenna.

Samkvæmt tölum FDA létust 24 af 3,4 milljónum kvenna sem tóku lyfið á árunum 2000 til 2018.

Mifepristone er hormónablokkari sem kemur í veg fyrir að líkaminn framleiði hórmón sem er nauðsynlegt þungun. Hitt lyfið sem konur taka, misoprostol, veldur samdráttum og er þegar hægt að nálgast með uppáskrift læknis.

Notkun lyfjanna tveggja til að framkalla þungunarrof er nú notuð í um 54 prósent allra tilvika þegar endir er bundinn á þunganir fyrir 9. viku meðgöngu.

BBC greindi frá.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×