AP fréttaveitan hefur eftir sérfræðingum að ástandið vestanhafs sé slæmt. Delta-afbrigðið sé enn í uppsveiflu og því sé í raun tvöföld bylgja að skella á Bandaríkjunum.
„Það er áhyggjuefni, því sjúkrahús eru full fyrir. Starfsfólk er þreytt,“ sagði Dr. Jacob Lemieux við fréttaveituna. Hann sagði ómíkron-afbrigðið geta gert slæmt slæmt ástand verra.
Fjöldi þeirra sem hafa dáið vegna Covid-19 í Bandaríkjunum er kominn yfir átta hundrað þúsund og er hvergi hærri. Stór bylgja virðist vera að hefjast í Bandaríkjunum og víða um heim vegna ómíkron-afbrigðis kórónuveirunnar.
Sjá einnig: Átta hundruð þúsund látnir í Bandaríkjunum
Samkvæmt gagnagrunni Johns Hopkins háskólans, sem byggir á opinberum tölum, hafa 50.341.524 smitast af Covid-19 í Bandaríkjunum, svo vitað sé. Af þeim hafa 802.014 dáið.
Í frétt New York Times segir að nýsmituðum fari hratt fjölgandi víða í Bandaríkjunum og heilbrigðiskerfi séu undir miklu álagi. Um 1.200 manns deyi á dag vegna Covid-19 og þeim hafi farið fjölgandi.
Enn er óljóst hvaða áhrif ómíkron-afbrigðið mun hafa á fólk, heilt yfir, en vísbendingar eru uppi um að afbrigðið valdi mildari einkennum en delta-afbrigðið, sem er ráðandi víðast hvar um heiminn.

Bretar áhyggjufullir
Chris Whitty, landlæknir Englands, sagði í dag að innlögnum á sjúkrahús myndi fjölga mjög í Bretlandi á komandi vikum. Það væri óhjákvæmilegt vegna undraverðar dreifingu ómíkron-afbrigðisins þar. Bretar tilkynntu í dag að 78.610 hefðu greinst smitaðir þar á undanförnum sólarhring en sú tala hefur aldrei verið hærri.
Whitty sagði að þetta met yrði líklegast slegið ítrekað á næstu vikum og það fæli í sér að innlögnum myndi fjölga einnig, samkvæmt frétt Sky News. Hann sagði Breta standa frammi fyrir alvarlegri ógn.