Erlent

Bannar á­fengis­sölu á veitinga­stöðum með nýjum sótt­varna­að­gerðum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Jonas Gahr Støre forsætisráðherra Noregs kynnti í kvöld hertar sóttvarnaaðgerðir sem munu gilda fram yfir hátíðarnar.
Jonas Gahr Støre forsætisráðherra Noregs kynnti í kvöld hertar sóttvarnaaðgerðir sem munu gilda fram yfir hátíðarnar. Getty/Hannah McKay

Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, kynnti í kvöld hertar sóttvarnaaðgerðir, sem meðal annars felast í áfengissölubanni á veitingastöðum, til að stemma stigu við útbreiðslu ómíkron afbrigðisins. Hann segir ástandið í landinu grafalvarlegt. 

Aðeins sex dagar eru liðnir síðan ríkisstjórn Støre kynnti hertar takmarkanir. Síðan þá hefur nýgengi smita hins vegar aðeins margfaldast og sagði Støre á blaðamannafundi í kvöld að staðan sé grafalvarleg og tilefni til enn harðari takmarkana. 

Aðgerðirnar taka gildi á miðvikudag, 15. desember, og munu gilda í fjórar vikur. Aðgerðirnar felast til að mynda í því að fólk megi aðeins bjóða tíu heim til sín í einu, fyrir utan um jól og áramót þegar tuttugu gestir eru leyfilegir. Eins metra fjarlægðaregla gildir þó. 

Allir sem geta unnið heima munu þurfa að vinna heima. Öllum ber skylda að bera grímur innandyra, mest tuttugu mega koma saman á almannafæri innandyra ef ekki er notast við númeruð sæti, en sé fólk með sérstök sæti eru fimmtíu manna hámark. Þá hefur áfengissala verið bönnuð. Reglur í skólum, á öllum stigum, hafa þá verið hertar. 

Eins og fyrr segir gilda takmarkanirnar í fjórar vikur og munu Norðmenn því þurfa að halda upp á hátíðarnar við harðar takmarkanir. Støre lagði þó áherslu á að öllum væri heimilt að fara heim um jólin og halda upp á hátíðarnar með sínum nánustu. 


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×