Enski boltinn

Lind­elöf átti í erfið­leikum með að anda

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lindelöf í leiknum í gær.
Lindelöf í leiknum í gær. Rob Newell/Getty Images

Victor Lindelöf þurfti að fara af velli þegar rúmur stundarfjórðungur var eftir af leik Manchester United og Norwich City í ensku úrvalsdeildinni í gær. Hann átti erfitt með að ná andanum og var því skipt út af.

Manchester United vann sinn þriðja leik í röð er liðið lagði Norwich 1-0 á útivelli. Sigurmarkið skoraði Cristiano Ronaldo úr vítaspyrnu skömmu eftir að sænski miðvörðurinn fór af velli.

Lindelöf átti erfitt með að ná andanum og Eric Bailly því sendur á vettvang til að aðstoða David De Gea og félaga við að verja mark Man United á meðan Lindelöf náði áttum sem og andanum á nýjan leik.

Ralf Rangnick, þjálfari Man United, ræddi skiptinguna við fjölmiðla eftir leik.

„Hann man ekki hvað gerðist. Ég held að hann hafi lent í árekstri við leikmann Norwich og í kjölfarið átti hann í vandræðum með að ná andanum í tíu mínútur eftir á. Hjartsláttur hans var töluvert hraðari en venjulega og því vissi hann ekki hvað hann átti að gera.“

„Hann fór í skoðun hjá lækni og virðist vera allt í lagi,“ sagði Rangnick eftir leik.

Lindelöf hefur spilað vel undanfarnar vikur og ljóst að Raphaël Varane fer ekki beint í byrjunarliðið þegar hann snýr til baka eftir meiðsli sín.

Manchester United er í 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 27 stig að loknum 16 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×