Óttast er að Chilwell hafi orðið fyrir meiðslum á fremra krossbandi, en leikmaðurinn fann til í hnénu í leiknum í gær og var tekinn af velli þegar tæpar tuttugu mínútur voru til leiksloka.
Hann fer í myndatöku í dag og í kjölfarið á því verður hægt að meta hversu alvarleg meiðslin eru. Ef rétt reynist að fremra krossbandið hafi skaddast þá gæti þessi 24 ára bakvörður misst af restinni af tímabilinu.
Eftir sigur liðsins í gær sagðist Thomas Tuchel, stjóri Chelsea, hafa áhyggjur af stöðu mála hjá bakverðinum unga. Sérstakelga þar sem hann hefur verið sjóðheitur undanfarið, líkt og Reece James í hægri bakverðinum.
„Þeir hafa báðir verið með mikið sjálfstraust og mikil gæði upp á síðkastið,“ sagði Tuchel. „Chilwell var sárþjáður en honum líður betur núna. Við verðum að krossa fingur og vona að meiðslin séu ekki of alvarleg.“
Þá fór N'Golo Kante einnig af velli í gær vegna hnémeiðsla og hann gæti misst af stórleik Chelsea gegn Manchester United næstkomandi sunnudag.