Enski boltinn

Svo ungur að þeir urðu að skipta út kampa­víninu fyrir snakk og kökur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zac Williams með snakkpokann sinn eftir leik.
Zac Williams með snakkpokann sinn eftir leik. Twitter/@crewealexfc

Það er vel þekkt þegar menn leiksins í enska boltanum fái kampavínsflösku eftir leik og oftast í beinni í sjónvarpsviðtali. Það getur stundum skapað vandamál.

Það kom nefnilega upp babb í bátinn um helgina þegar Crewe Alexandra ætlaði að verðlauna besta leikmann sinn í 2-0 sigri á Gillingham í ensku C-deildinni.

Besti maður vallarins miðvörðurinn og Walesbúinn Zac Williams sem stóð sig frábærlega í miðri vörn Crewe liðsins. Vandamálið var að Zac Williams er fæddur í mars 2005 og því enn bara sextán ára gamall.

Það þótti því skiljanlega ekki við hæfi að afhenta stráknum kampavínsflösku eftir leikinn.

Starfsmenn Crewe urðu að finna eitthvað annað og endanum fékk strákurinn snakk og kökur í verðlaun fyrir að vera maður leiksins.

Það er ekki eins og einhver hafi búist við þessu fyrir fram. Zac var í byrjunarliðinu í fyrsta sinn og hafði aðeins leikið einn deildarleik áður.

Hann steig inn í miðja vörnina og Crewe liðið vann ekki aðeins fyrsta deildarleik sinn síðan 18. september heldur hélt liðið hreinu í fyrsta sinn í ellefu deildarleikjum.

Williams spilaði í þriggja miðvarða vörn Crewe í leiknum en með honum voru hinn 21 árs gamli Billy Sass-Davies og hinn 22 ára gamli Luke Offord. Það er því sérstakt að vera bara 22 ára gamall en samt sex árum eldri heldur en félagi þinn í miðverðinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×