Í yfirlýsingu frá nefndinni í dag segir að Shuai hafi rætt við Thomas Bach, forseta nefndarinnar, og nokkra stjórnarmenn hennar í um hálftíma í dag.
„Henni sagðist líða vel og að hún væri örugg á heimili sínu í Peking en að hún vilji að hennar einkalíf verði virt á þessum tímapunkti,“ segir í yfirlýsingunni.
„Þess vegna vill hún vera með vinum sínum og fjölskyldu einmitt núna. Hún mun samt sem áður halda áfram í tennis, greininni sem hún elskar svo mikið.“
Óttuðust um Shuai
Margir hafa haft gríðarlegar áhyggjur af Shuai frá því að hún birti færsluna en henni var eytt út af kínverska samfélagsmiðlinum, sem er ritskoðaður af kínverska ríkinu. Öllum upplýsingum um hana var síðan eytt af internetinu í kjölfarið.
Alþjóðatennissambandið og áhrifafólk um heim allan hefur þrýst á Kínverja að bregðast við ásökunum Shuai og koma með haldbærar sannanir um að hún sé örugg. Sambandið gekk svo langt að hóta því að draga sig úr öllum keppnum sem haldnar væru á kínverskri grundu ef ekkert heyrðist frá Shuai.
Það var svo í dag að Alþjóðaólympíusambandið fékk loks að heyra frá Shuai, sem leið vel að eigin sögn.
„Mér var mjög létt að sjá að það væri í lagi með Peng Shuai, en það var okkar aðaláhyggjuefni að svo væri ekki,“ er haft eftir einum stjórnarmanni nefndarinnar í yfirlýsingunni.