Erlent

Krefjast svara um Peng Shuai

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar

Alþjóðatennissamband kvenna krefst þess að kínversk stjórnvöld bregðist við ásökunum tenniskonunnar Peng Shuai og að þau leggi fram sannanir um að hún sé örugg og á lífi. Að öðrum kosti muni sambandið ekki mæta til leiks á kínverskri grundu.

Ekkert hefur spurst til kínversku tenniskonunnar Peng Shuai frá því hún birti færslu á kínverska samfélagsmiðlinum Weibo þann 2. nóvember, þar sem hún kvað Zhang Gaoli, fyrrverandi varaforseta landsins, hafa nauðgað sér. Gaoli var varaforseti Kína frá árinu 2013 til 2018.

Stjórnvöld eyddu hins vegar færslu Shuai og það sem meira er – öllum upplýsingum um Shuai var eytt af internetinu, en Shuai er goðsögn í Kína fyrir árangur sinn í íþróttinni.

Þrátt fyrir gríðarlegan þrýsting frá áhrifafólki um allan heim og tennisfólki á borð við Serenu Williams og Naomi Osaka, sem hafa birt færslur undir myllumerkinu #Hvar er Peng Shuai, þegja stjórnvöld þunnu hljóði um afdrif tenniskonunnar.

Þann 14. nóvember, eða tæpum tveimur vikum eftir hvarf Shuai, sendi alþjóðlega tennissamband kvenna frá sér yfirlýsingu og krafðist þess að ásakanirnar yrðu rannsakaðar.Það var síðan á blaðamannafundi í gær sem stjórnvöldum var stillt upp við vegg og krafin svara um málið. Svörin reyndust hins vegar afar takmörkuð; stjórnvöld sögðust ekkert kannast við málið.

Ríkismiðill Kínverja birti síðan í gær bréf sem sagt er vera frá Peng Shuai sjálfri, þar sem hún kveðst vera óhult og heima að hvíla sig. Tennissambandið birti þá aðra yfirlýsingu þar sem það dró sannleiksgildi bréfsins í efa og sagðist ætla að draga sig úr öllum mótum í Kína, komi ekki fram haldbærar sannanir um að Shuai sé örugg og að kínversk stjórnvöld bregðist við þessum ásökunum.

Að öðru leyti hefur ekkert heyrst frá Peng Shaui og spurningunni um hvar hún er, er því enn ósvarað.


Tengdar fréttir

Osaka hefur áhyggjur af týndu tenniskonunni

Naomi Osaka hefur áhyggjur af kínversku tenniskonunni Peng Shuai sem hefur ekki sést opinberlega síðan hún sakaði fyrrverandi varaforsætisráðherra Kína um kynferðisofbeldi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×