Erlent

Heilbrigðisráðherra Þýskalands útilokar ekki allsherjar útgöngubann

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fólk bíður eftir því að komast í bólusetningu á lestarstöð í Frankfurt.
Fólk bíður eftir því að komast í bólusetningu á lestarstöð í Frankfurt. epa/Constantin Zinn

Stjórnvöld í Þýskalandi segja neyðarástand ríkja í landinu vegna útbreiðslu kórónuveirunnar og útiloka ekki að grípa til allsherjar útgöngubanns líkt og komið hefur verið á í Austurríki.

„Við erum nú á þeim stað, jafnvel þótt þetta verði að fréttamat, að við getum ekki útilokað neitt,“ sagði heilbrigðisráðherrann Jens Spahn á blaðamannafundi rétt í þessu.

Fjármálamarkaðir tóku kipp niður á við strax í kjölfarið.

Stjórnvöld í Austurríki hafa gripið til tíu daga útgöngubanns fyrir alla en í fyrstu náðu aðgerðirnar eingöngu til óbólusettra. Þau hyggjast nú skylda alla til að þiggja bólusetningu fyrir febrúar.

52.970 greindust með Covid-19 í Þýskalandi í gær og 201 létust. Alls hafa 98.739 látist af völdum kórónuveirunnar frá því að faraldurinn fór af stað.

Angela Merkel kanslari sagði fyrr í vikunni að ástandið væri alvarlegt og að fjórða bylgjann hefði skollið á landinu af fullu afli. Lothar Wieler, yfirmaður þýsku sóttvarnastofnunarinnar, sagði „afar slæma jólahátíð“ framundan ef ekki yrði gripið til harðra aðgerða.

Nýjar aðgerðir verða ræddar í þinginu í dag og þá greindi Spahn frá því að stjórnvöld ættu í viðræðum við Pfizer um nýtt lyf gegn Covid-19.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.