Íslenski boltinn

FH fær vinstri bakvörð Fram

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Haraldur Einar hefur hafið æfingar með FH.
Haraldur Einar hefur hafið æfingar með FH. Facebook/FHingar

Nýliðar Fram halda áfram að missa leikmenn úr sínum röðum en vinstri bakvörðurinn Haraldur Einar Ásgrímsson hefur samið við FH um mun leika með félaginu næstu þrjú árin.

Fram virðist ætla að mæta laskað til leiks eftir nokkurra ára fjarveru úr efstu deild karla í knattspyrnu hér á landi. Miðvörðurinn Kyle McLagan samdi nýverið við Íslandsmeistara Víkings og nú er ljóst að vinstri bakvörðurinn Haraldur Einar mun ekki leika með liðinu á næstu leiktíð.

Haraldur sem er fæddur árið 2000 var í lykilhlutverki er Fram sló stigamet í Lengjudeild karla á síðustu leiktíð. Hann hefur alls leikið 104 KSÍ leiki og skorað í þeim fjögur mörk.

Hann kemur til með að veita Ólafi Guðmundssyni samkeppni um stöðu vinstri bakvarðar FH-liðsins en Hjörtur Logi Valgarðsson liggur undir feld varðandi hvort hann verði áfram hjá félaginu eða skórnir fari mögulega á hilluna.

„Það er mikið gleðiefni fyrir okkur FH-inga að fá Harald í Kaplakrika enda hluti af stefnu félagsins að fá unga öfluga leikmenn til að spila í hvítu treyjunni,“ segir í yfirlýsingu FH um komu Haraldar Einars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×