Enski boltinn

Sadio Mane fór meiddur af velli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sadio Mane bætist í hóp þeirra leikmanna Liverpool sem hafa meiðst í landsleikaglugganum.
Sadio Mane bætist í hóp þeirra leikmanna Liverpool sem hafa meiðst í landsleikaglugganum. EPA-EFE/PETER POWELL

Liverpool maðurinn Sadio Mane meiddist í leik með senegalska landsliðinu í gær í undankeppni HM.

Mane yfirgaf völlinn í fyrri hálfleik í 1-1 jafntefli Senegal á móti Tógó og spilaði minna en hálftíma.

Mane virtist togna aftan í læri og tók enga áhættu með meiðslin. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Liverpool missir mann í meiðsli í landsleikjaglugga.

Aliou Cisse, þjálfari Senegal, lét hafa það eftir sér að meiðslin væru ekki alvarleg. Hann sagðist hafa tekið hann af velli fyrst og fremst sem varúðarráðstöðvun.

Það er samt áhyggjuefni fyrir Jürgen Klopp og Liverpool fólk að sjá einn besta sóknarmann liðsins meiðast.

Liverpool verður án Roberto Firmino næstu vikurnar en Brasilíumaðurinn tognaði í síðasta leik liðsins.

Senegal er búið að tryggja sér sigur í sínum riðli og þar með sæti í úrslitaumferðina um sæti Afríku á HM. Lokaleikur liðsins er á móti Kongó á sunnudaginn.

Mane er búinn að skora 8 mörk í 15 leikjum í öllum keppnum með Liverpool á tímabilinu þar af 6 mörk í 11 leikjum í ensku úrvalsdeildinni. Hann hefur skorað fimm mörk í átta landsleikjum á árinu 2021 og 26 landsliðsmörk alls í 79 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×