Enski boltinn

Draugahráki á Anfield og Liverpool lokar málinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, ræðir við fjórða dómarann Mike Dean í umræddum leik á móti Liverpool á Anfield.
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, ræðir við fjórða dómarann Mike Dean í umræddum leik á móti Liverpool á Anfield. Getty/Simon Stacpoole

Niðurstaða rannsóknar Liverpool á hrákamálinu í leiknum við Manchester City á þessu tímabili er að enginn hrækti á starfsmann Manchester City. Tveir stuðningsmenn fengu aftur á móti viðvörun vegna framkomu sinnar.

Umræddir stuðningsmenn Liverpool fengu ekki aðeins viðvörun heldur mega þeir ekki lengur sitja hjá varamannabekkjunum. Sæti þeirra voru því færð annað á Anfield.

Manchester City kvartaði við Liverpool um framkomu stuðningsmanna Liverpool á leik liðanna á Anfield 3. október síðastliðinn. Stuðningsmaður Liverpool átti meðal annars að hafa hrækt á starfsmann City.

Liverpool tók málið alvarlega og hóf ítarlega rannsókn. Þar voru skoðaðar upptökur úr öryggismyndavélum auk þess að ræða við þá sem voru á svæðinu. Liverpool fann enga sönnun þess að stuðningsmaður hafi hrækt á starfsmann Manchester City.

Liverpool skilaði niðurstöðum rannsóknarinnar til enska knattspyrnusambandsins.

Leiknum sjálfum endaði með 2-2 jafntefli þar sem Manchester City liðið jafnaði í tvígang. Sadio Mane og Mo Salah skoruðu fyrir Liverpool og Phil Foden og Kevin De Bruyne fyrir City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×