Enski boltinn

Solskjær kveðst ekki skilja umræðuna um Ronaldo: Einn besti leikmaður sögunnar

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær þakkar Cristinao Ronaldo kærlega fyrir sitt framlag.
Ole Gunnar Solskjær þakkar Cristinao Ronaldo kærlega fyrir sitt framlag. Catherine Ivill/Getty Images

Ole Gunnar Solskjær, stjóri Man Utd, gefur lítið fyrir umræðu þess efnis að koma Cristiano Ronaldo til félagsins hafi ekki haft góð áhrif á leik liðsins.

Spilamennska Man Utd hefur ekki þótt sannfærandi það sem af er leiktíðar og situr liðið í 5.sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir tíu umferðir, átta stigum á eftir toppliði Chelsea.

Einhverjir spekingar telja tilveru Ronaldo innan liðsins hafa slæm áhrif á leikstílinn en ekki er þó hægt að kvarta mikið yfir framlagi Portúgalans snjalla sem hefur skorað níu mörk í ellefu leikjum.

„Hann er einn besti fótboltamaðurinn sem hefur gengið um þessa plánetu. Hans áhrif hafa verið gríðarleg. Hann skorar mörk og vinnur vel fyrir liðið. Hann er úrvals atvinnumaður.“

„Ég skil ekki hvernig fólk getur litið á komu hans neikvæðum augum. Við erum mjög ánægðir með hvernig hann hefur byrjað hjá okkur,“ segir Ole Gunnar.

Man Utd mætir Man City í stórleik 11.umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í dag, aðeins nokkrum dögum eftir að hafa steinlegið fyrir hinum erkifjendunum í Liverpool á Old Trafford um síðustu helgi.

„Við erum búnir að segja skilið við þann leik. Auðvitað fer hann í sögubækurnar en við höfum átt góða viku. Við náðum í góð úrslit á útivelli í erfiðum leik og við höfum jákvætt hugarfar,“ segir Ole, stálsleginn.

„Við verðum að fara inn í þennan leik með trú á að við getum gert góða hluti. Þetta er nágrannaslagur og það vita allir hvað er mikið undir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×