Enski boltinn

Guardiola: Brugge leikurinn er miklu mikilvægari en leikurinn við Man. United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola í tapleik Manchester City á móti Crystal Palace á Etihad leikvanginum um helgina.
Pep Guardiola í tapleik Manchester City á móti Crystal Palace á Etihad leikvanginum um helgina. Getty/Naomi Baker

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City hefur meiri áhyggjur af Meistaradeildarleik liðsins á móti Club Brugge heldur en Manchester slagnum á laugardaginn.

Manchester City er í öðru sæti í A-riðli Meistaradeildarinnar á eftir Paris Saint-Germain og getur tekið stórt skref í átt að sæti í sextán liða úrslitunum með sigri á belgíska liðinu á heimavelli á morgun.

„Þessi leikur er miklu mikilvægari en United leikurinn,“ sagði Pep Guardiola á blaðamannafundi fyrir Club Brugge leikinn.

„Þarna er möguleiki fyrir okkur að taka ótrúlegt skref í átt að komast í sextán liða úrslit Meistaradeildarinnar,“ sagði Guardiola.

„Í ensku úrvalsdeildinni eru margir leikir en hér eru bara sex og það eru bara þrír eftir. Það er ekki mikið og hver þeirra skiptir því svo miklu máli ekki síst þriðji og fjórði leikurinn. Þetta eru mikilvægustu leikirnir og við þurfum að taka þá alvarlega,“ sagði Guardiola.

„Á morgun fáum við tækifæri en þetta verður erfiðara með hverju árinu. Þetta eru bara sex leikir, það er erfitt ef lið tapa meira en einum leik og við erum þegar búnir að tapa í París,“ sagði Guardiola.

Manchester City átti ekki góða viku því liðið datt út úr enska deildarbikarnum eftir tap á móti West Ham í vítakeppni og steinlá síðan 2-0 á heimavelli á móti Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi.

Það búast flestir við auðveldum Manchester City sigri í kvöld eftir að City vann 5-1 sigur í fyrri leik liðanna í Belgíu.

„Við erum einbeittir á það að vinna Brugge. Ef þú gerir nógu marga góða hluti þá getur þú unnið leiki. Við erum ennþá að gera mistök, í fjögurra manna varnarlínunni og í pressunni. Það er eðlilegt. Ég horfði aftur á leikinn á móti Brugge og sá hversu marga hluti við gerðum ekki nógu vel. Við vorum aftur á móti góðir í sókninni,“ sagði Guardiola.

„Ég er nokkuð viss um það að þeir muni aðlaga sinn leik og reyna að refsa okkur. Við þurfum líka að aðlaga okkur til að verða betri. Þetta verður allt öðruvísi leikur,“ sagði Pep Guardiola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×