Enski boltinn

Conte tekinn við Tottenham

Sindri Sverrisson skrifar
Antonio Conte með Tottenham-treyjuna í dag.
Antonio Conte með Tottenham-treyjuna í dag. mynd/Tottenham Hotspur

Antonio Conte var í hádeginu tilkynntur sem nýr knattspyrnustjóri enska félagsins Tottenham. Hann tekur við liðinu af Nuno Espírito Santo sem var rekinn.

Samingur Conte gildir fram til sumarsins 2023, með möguleika á framlengingu.

Conte snýr aftur til Lundúna með ansi álitlega ferilskrá. Sem knattspyrnustjóri hefur hann með annars orðið Ítalíumeistari í þrígang með Juventus og svo með Inter í vor. Í millitíðinni gerði hann Chelsea að Englandsmeistara árið 2017 og enskum bikarmeistara árið 2018.

Conte stýrði ítalska landsliðinu á árunum 2014-2016 og kom því í 8-liða úrslit á EM 2016.

Ítalinn átti í viðræðum við Tottenham í sumar um að taka við liðinu af Jose Mourinho en á endanum réði félagið Nuno til starfa. Hann fékk þó aðeins að stýra liðinu í fjóra mánuði og skildi við það í 9. sæti með 15 stig eftir 10 umferðir.

„Ég er afskaplega ánægður með að snúa aftur í þjálfun og að gera það með ensku úrvalsdeildarfélagi með metnað til að snúa aftur í fremstu röð,“ sagði Conte.

„Tottenham Hotspur er með allar bestu nútímaaðstæður og einn besta leikvang í heimi. Ég get ekki beðið eftir því að hefja störf og miðla áfram til liðsins og stuðningsmanna þeirri ástríðu, hugarfari og ákveðni sem hafa alltaf einkennt mig, bæði sem leikmann og þjálfara,“ sagði Conte.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×