Liverpool kastaði frá sér tveggja marka forskoti

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Mo Salah og Sadio Mane hefðu líklega viljað öll stigin í dag.
Mo Salah og Sadio Mane hefðu líklega viljað öll stigin í dag. Getty/Simon Stacpoole

Liverpool kastaði frá sér tveggja marka forskoti er liðið tók á móti Brighton & Hove Albion í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Lokatölur 2-2, en Liverpool komst tveimur mörkum yfir snemma leiks.

Ekki þurfti að bíða lengi eftir fyrsta marki leiksins, en á fjórðu mínútu smellti Jordan Henderson fallegu skoti í fjærhornið eftir undirbúning Mohamed Salah.

Sadio Mane tvöfaldaði svo forskot heimamanna með góðu marki á 24. mínútu eftir stoðsendingu frá Alex Oxlade-Chamberlain, og sá fyrrnefndi hélt að hann hefði komið Liverpool í 3-0 tíu mínútum seinna, en markið var dæmt af vegna brots í aðdraganda marksins.

Enock Mwepu minnkaði muninn fyrir gestina stuttu fyrir hálfleik eftir stoðsendingu frá Solly March og staðan var því 2-1 þegar gengið var til búningsherbergja.

Þegar um 25 mínútur voru til leiksloka jöfnuðu gestirnir svo metin með marki frá Leandro Trossard, en það var enginn annar er fyrrverandi Liverpool maðurinn Adam Lallana sem lagði markið upp.

Hvorugu liðinu tókst að finna sigurmarkið í leiknum og liðin skiptu því stigunum á milli sín. Liverpool situr í öðru sæti deildarinnar með 22 stig eftir tíu leiki, sex stigum meira en Brighton sem situr í sjötta sæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira