Erlent

Stefna áströlskum stjórn­völdum vegna að­gerða­leysis í lofts­lags­málum

Kjartan Kjartansson skrifar
Verkamenn bisa við nýjan sjóvarnargarð á Boigu-eyju í Torres-sundi. Fleiri en 250 eyjur eru í sundinu sem skilur að Cape York-skaga Ástralíu og suðurströnd Papúa Nýju-Gíneu. Þær eru á meðal fjölda Kyrrahafseyja sem eru í hættu vegna hækkandi sjávarstöðu.
Verkamenn bisa við nýjan sjóvarnargarð á Boigu-eyju í Torres-sundi. Fleiri en 250 eyjur eru í sundinu sem skilur að Cape York-skaga Ástralíu og suðurströnd Papúa Nýju-Gíneu. Þær eru á meðal fjölda Kyrrahafseyja sem eru í hættu vegna hækkandi sjávarstöðu. Vísir/Getty

Frumbyggjar á tveimur afskekktum eyjum hafa stefnt áströlsku ríkisstjórninni fyrir að hafa látið hjá liggja að vernda þá fyrir loftslagsbreytingum sem ógna nú heimkynum þeirra.

Íbúar eyjanna Boigu og Saibai í Torres-sundi norðan við Ástralíu standa frammi fyrir hættu á sjávarflóðum og að salt spilli jarðvegi vegna aukinna veðuröfga og hækkandi sjávarstöðu sem má rekja til hnattrænnar hlýnunar. Í stefnu þeirra gegn ástralska ríkinu segir að mikil vissa sé fyrir því að eyjarnar séu viðkvæmar fyrir meiriháttar afleiðingum loftslagsbreytinga jafnvel þó að sjávarstaða hækki aðeins lítillega.

Paul Kabai er einn tveggja stefnenda. Hann segir þjóð sína hafa búið á eyjunum í meira en 65.000 ár. Íbúarnir gætu þurft að segja skilið við eyjarnar hafi flóðin og óveðrið áfram, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.

„Ef við verðum loftslagsflóttamenn missum við allt: heimili okkar, menningu okkar, sögur okkar og einkenni,“ segir Kabai.

Eyjaskeggjarnir lögðu fram kvörtun til Sameinuðu þjóðanna vegna mannréttindabrota á sambærilegum forsendum fyrir tveimur árum en ekki hefur verið tekin afstaða til hennar.

Fyrirmynd stefnunnar er sótt til Hollands þar sem umhverfisverndarhópur fór fyrir málsókn gegn stjórnvöldum. Dómstóll komst að þeirri niðurstöðu að stjórnvöldum bæri skylda til að verja hollenska þegna fyrir loftslagsbreytingum.

Ástralía er umsvifamikill kolaframleiðandi og hafa stjórnvöld þar lengi dregið lappirnar og jafnvel þrætt fyrir raunveruleika loftlagsbreytingar. Gagnaleki í síðustu viku varpaði meðal annars ljósi á hvernig áströlsk stjórnvöld hafa á bak við tjöldin þrýst á Sameinuðu þjóðirnar um að leggja minni áherslu á að ríki heims dragi úr notkun jarðefnaeldsneytis.

Áströlsk stjórnvöld kynntu áform um að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2050 í gær.


Tengdar fréttir

Losun koltvísýrings að ná fyrri hæðum

Losun koltvísýrings fer nú aftur vaxandi í heiminum og samkvæmt nýrri skýrslu hefur hann aukist í 20 ríkustu löndum jarðar miðað við síðasta ár.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×