Enski boltinn

Mark­vörður Brent­ford frá næstu mánuðina | Gæti opnast pláss fyrir Pat­rik Sigurð

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Markvörður Brentford er meiddur eftir að hafa lent í samstuði gegn Leicester City á dögunum.
Markvörður Brentford er meiddur eftir að hafa lent í samstuði gegn Leicester City á dögunum. Plumb Images/Getty Images

David Raya, markvörður enska úrvalsdeildarfélagsins Brentford, meiddist illa gegn Leicester City um liðna helgi og verður frá næstu fjóra til fimm mánuðina. Gæti það opnað tækifæri fyrir Patrik Sigurð Gunnarsson sem er í dag á láni hjá Viking í Noregi.

Hinn 26 ára gamli Raya slasaðist á vinstra hné er hann og Ayoze Pérez rákust saman undir lok leiksins sem endaði með 2-1 sigri Leicester City. Ekki er talið að Raya þurfi að fara í aðgerð en það er þó næsta víst að hann verði frá næstu fjóra til fimm mánuðina.

Alvaro Fernandez kom inn fyrir Raya gegn Leicester. Sá er 23 ára gamall Spánverji sem kom á láni frá Huesca í sumar. Fernandez hefur setið á varamannabekknum í ensku úrvalsdeildinni það sem af er tímabili en spilað báða leiki Brentford í enska deildarbikarnum.

Fernandez er sem stendur eini leikfæri markvörður í aðalliði félagsins. Félagið er þó með tvo á láni, þar á meðal Patrik Sigurð Gunnarsson, og tvo í B-liði sínu. Patrik Sigurður virtist vera næstur í röðinni á eftir Raya á undirbúningstímabilinu og var til að mynda á varamannabekk liðsins er það lagði Arsenal í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar. 

Á endanum var ákveðið að fá Fernandez á láni og var Patrik Sigurður í kjölfarið lánaður til Noregs þar sem hann leikur í efstu deild með Viking. Á síðustu leiktíð lék hann með bæði Viborg og Silkeborg í dönsku B-deildinni er bæði lið flugu upp í úrvalsdeildina þar í landi.

Það gæti því farið svo að Thomas Frank, þjálfari Brentford, kalli Patrik Sigurð til baka til að veita Fernandez samkeppni. Hvort það sé hægt nú strax eða þurfi að bíða þangað til félagaskiptaglugginn í janúar opnar verður að koma í ljós.

Patrik Sigurður Gunnarsson lék gegn West Ham United á undirbúningstímabilinu og var á varamannabekk Brentford í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar.Getty/Matthew Ashton



Fleiri fréttir

Sjá meira


×