Enski boltinn

Zidane sagður ekki hafa áhuga á að taka við Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zinedine Zidane með bikarinn með stóru eyrun sem hann vann þrjú ár í röð sem stjóri Real Madrid.
Zinedine Zidane með bikarinn með stóru eyrun sem hann vann þrjú ár í röð sem stjóri Real Madrid. Getty/Angel Martinez

Zinedine Zidane verður ekki næsti knattspyrnustjóri Manchester United fari svo að United ákveði að láta Ole Gunnar Solskjær fara.

Það lítur út fyrir að Solskjær ætli að lifa af 5-0 tap á heimavelli á móti erkifjendunum í Liverpool og spottinn hans er orðin ansi stuttur. Mennirnir sem hafa verið orðaðir við starfið eru einkum Antonio Conte og Zinedine Zidane.

Samkvæmt heimildum ESPN þá hefur Zidane ekki áhugi á starfinu. Franski knattspyrnustjórinn er ekkert að flýta sér í nýtt starf og ætlar að velja næsta starf vel. Conte hefur aftur á móti verið mjög jákvæður að setjast í stjórastólinn á Old Trafford.

Zidane horfir líklega til landsliðsþjálfarastarfs Frakka en hann þykir líklegur eftirmaður Didier Deschamps. Það lítur þó ekki út fyrir það að Deschamps sé á förum enda nýbúinn að gera franska landsliðið að Þjóðadeildarmeisturum.

Zidane er 49 ára gamall og hætti með Real Madrid liðið í sumar. Þetta var önnur þjálfaratíð hans með spænska stórliðið en sem þjálfari Real Madrid þá vann Zidane Meistaradeildina þrisvar sinnum, spænsku deildina tvisvar, tvo heimsmeistaratitla félagsliða og svo Ofurbikar Evrópu tvisvar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×