Enski boltinn

Salah með fleiri mörk á Old Trafford á árinu en allir leikmenn United nema einn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah sést hér með styttu af sjálfum sér á Madame Tussauds safninu í London.
Mohamed Salah sést hér með styttu af sjálfum sér á Madame Tussauds safninu í London. AP/Aaron Chown

Árið 2021 hefur svo sannarlega verið ár egypska kóngsins á Old Trafford í Manchester.

Mohamed Salah fór á kostum í 5-0 sigri Liverpool á Manchester United í gær og var með þrennu og stoðsendingu í leiknum.

Þetta þýðir jafnframt að Salah er búinn að skora sex mörk á Old Trafford á þessu ári.

Salah skoraði tvívegis í bikarleik á móti United 24. janúar og skoraði einnig eitt mark í 4-2 sigri í deildinni í maí.

Þetta eru allir þrír leikir Salah á Old Trafford á þessu ári.

Aðeins einn leikmaður Manchester United hefur skorað fleiri mörk en Salah í leikhúsi draumanna á þessu almanaksári þrátt fyrir alla leikina sem United hefur spilað á heimavelli sínum á árinu.

Sá maður er Bruno Fernandes sem er með tíu mörk í öllum keppnum á Old Trafford á árinu.

Mason Greenwood hefur skorað sex mörk eins og Salah.

Það var svolítið fjallað um það að Salah náði ekki að skora í fyrstu fjórum leikjum sínum á móti Manchester United í ensku úrvalsdeildinni en Egyptinn öflugi hefur heldur betur bætt úr því í síðustu leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×