Enski boltinn

Chelsea skoraði fögur mörk en missti tvo framherja

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Romelu Lukaku er hér sárþjáður eftir að hann meiddist á ökkla í gær.
Romelu Lukaku er hér sárþjáður eftir að hann meiddist á ökkla í gær. Getty/James Williamson

Framherjarnir Romelu Lukaku og Timo Werner fóru báðir meiddir af velli þegar Chelsea vann 4-0 sigur á sænska liðinu Malmö í Meistaradeildinni í gær.

Ítalski miðjumaðurinn Jorginho skoraði úr tveimur vítaspyrnum en hin mörkin skoruðu miðvörðurinn Andreas Christensen og þýski landsliðsmaðurinn Kai Havertz. Havertz hafði komið inn á sem varmaður fyrir Romelu Lukaku strax á 23. mínútu.

Þetta var flottur og öruggur sigur en hann var líka dýrkeyptur því liðið missti báða framherja sína meidda af velli.

Meiðsli þeirra Lukaku og Timo Werner þýða líka að Chelsea liðið er án þekkts framherja fyrir leik sinn í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Chelsea, býst líka við því að vera án þeirra beggja í næstu leikjum liðsins.

Lukaku tognaði á ökkla og Werner tognaði aftan í læri en báðir meiddust þeir í fyrri hálfleiknum.

„Það mun taka tíma hjá þeim báðum að ná sér góðum en við þurfum frekari rannsóknir til að vera viss,“ sagði Thomas Tuchel eftir leikinn.

„Þeir verða frá í nokkra leiki,“ sagði Tuchel.

Chelsea á eftir deildarleiki á móti Norwich og Newcastle á næstunni auk deildabikarleiks á móti Southampton.

Chelsea liðið er í efsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með eins stigs forskot á Liverpool en í öðru sæti síns riðils í Meistaradeildinni þremur stigum á eftir Juventus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×