Enski boltinn

Ole: Þeir sem eru að gagnrýna Ronaldo ættu bara að horfa á þennan leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ole Gunnar Solskjaer fagnar Cristiano Ronaldo efir leikinn á Old Trafford í gær.
Ole Gunnar Solskjaer fagnar Cristiano Ronaldo efir leikinn á Old Trafford í gær. AP/Dave Thompson

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, sagði eftir sigurinn í Meistaradeildinni í gær að Cristiano Ronaldo hafi þar sýnt og sannað að gagnrýnendur hans séu á villigötum.

Í öðrum Meistaradeildarleiknum í röð þá skoraði Cristiano Ronaldo sigurmark Manchester liðsins í lokin en hann hefur skorað í fyrstu þremur leikjum United liðsins í keppninni í ár.

Sigurmarkið á móti Atalanta í gærkvöldi skoraði Ronaldo með frábærum skalla á 81. mínútu og kórónaði með því endurkomu liðsins. United menn voru 2-0 undir í hálfleik en skoruðu þrjú mörk í seinni hálfleiknum.

„Cristiano er frábær fyrir framan markið. Ef einhver vill gagnrýna hann fyrir vinnusemi og að hann leggi sig ekki fram þá ætti sá hinn sami bara að horfa á þennan leik. Sjáið hvernig hann hljóp í kvöld,“ sagði Ole Gunnar Solskjær.

„Ég var mjög ánægður með það hvernig hann leiddi línuna. Við báðum hann um að hlaupa upp kantana, detta meira til baka og pressa meira af því að við vorum á heimavelli,“ sagði Solskjær.

„Hann var meira að segja kominn aftur í eigin markteig undir lokin til að komast fyrir skot þeirra og til að verjast en við fengum heldur betur að sjá hann spretta úr spori í kvöld,“ sagði Solskjær.

„Hann gerði allt sem framherji getur gert, leiddi línuna, varðist og svo auðvitað var markið dæmi um það sem hann gerir betur en flestir,“ sagði Solskjær.

Ronaldo er nú kominn með sex mörk í átta leikjum í öllum keppnum á þessu tímabili.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.