Enski boltinn

Bruce rekinn frá Newcastle

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Steve Bruce er ekki lengur knattspyrnustjóri Newcastle.
Steve Bruce er ekki lengur knattspyrnustjóri Newcastle. getty/Robbie Jay Barratt

Steve Bruce er hættur sem knattspyrnustjóri Newcastle United. Þetta staðfesti félagið í morgun.

Þessar fréttir koma eflaust fáum á óvart enda var búist við því að nýir eigendur Newcastle myndu skipta um stjóra. Í yfirlýsingu frá Newcastle kemur fram að Bruce og forráðamenn Newcastle hafi komist að sameiginlegri niðurstöðu um að hann myndi hætta hjá félaginu.

Bruce stýrði Newcastle í síðasta sinn á sunnudaginn þegar liðið tapaði, 2-3, fyrir Tottenham á heimavelli. Það var jafnframt þúsundasti leikur hans á stjóraferlinum.

Bruce tók við Newcastle sumarið 2019 og stýrði liðinu í rúm tvö ár. Newcastle endaði í 13. sæti ensku úrvalsdeildarinnar á fyrsta tímabili Bruce við stjórnvölinn. Á síðasta tímabili enduðu Newcastle-menn í 12. sæti.

Newcastle hefur ekki enn unnið leik á þessu tímabili og er með þrjú stig í nítjánda og næstneðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Greame Jones tekur við Newcastle til bráðabirgða og stýrir liðinu gegn Crystal Palace á laugardaginn.

Fjölmargir hafa verið orðaðir við stjórastarfið hjá Newcastle að undanförnu. Má þar meðal annars nefna Steven Gerrard, Lucien Favre, Paulo Fonseca, Brendan Rodgers og Eddie Howe.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.