Erlent

Vilja að Bolsonaro verði ákærður fyrir morð

Samúel Karl Ólason skrifar
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu.
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu. AP/Eraldo Peres

Brasilískir öldungadeildarþingmenn segja að ákæra ætti Jair Bolsonaro, forseta landsins, vegna fjölda dauðsfalla sökum Covid-19. Meðal annars ætti að ákæra hann fyrir morð fyrir að ákvarðanir sem leiddu til aukinnar útbreiðslu Covid í Brasilíu.

Ein alvarlegasta ásökunin gegn Bolsonaro snýr að því að hann hafi vísvitandi dregið lappirnar í því að kaupa bóluefni og vegna þessa hafi þúsundir dáið. Hann hafi fyrst fengið tækifæri til að kaupa bóluefni í júlí 2020 en hafi ekki gert það fyrr en í janúar.

Meira en 600 þúsund manns eru látnir í Brasilíu vegna Covid-19, svo vitað sé. Í bráðabirgðaskýrslu öldungadeildarinnar, sem fjölmiðlar ytra hafa birt, segir að forsetinn beri ábyrgð á þeim ákvörðunum sem teknar voru í ríkisstjórn hans.

Í frétt Guardian segir að skýrslan gæti komið niður á Bolsonaro en um hálft ár er í næstu þingkosningar í Brasilíu. Þá hafa bandamenn hans og embættismenn verið dregnir af þingmönnum fyrir myndavélar á nefndarfundum og mikil reiði sé í garð ríkisstjórnar Bolsonaro.

Bolsonaro hefur ítrekað verið gagnrýndur af heilbrigðissérfræðingum fyrir að vera mótfallinn sóttvarnaraðgerðum og neita að bera grímu, svo eitthvað sé nefnt. Hann hefur þar að auki hvatt fólk til að notast við lyf eins og malaríulyfið hydroxychloroquine, sem ekki hefur verið sannað að virki gegn Covid.

Öldungadeildin hefur ekki samþykkt skýrsluna og henni gæti verið breytt. Bolsonaro sjálfur sagði í dag að hann liti á rannsókn þingsins sem brandara og hefði engar áhyggjur af henni.

Forsetinn þarf í raun ekki að hafa áhyggjur því líkur á því að hann verði færður fyrir dómara eru litlar sem engar. Sérstaklega á meðan hann situr í embætti. Jafnvel þó þingið samþykkti að ákæra hann væri lokaákvörðunin í höndum ríkissaksóknara Brasilíu, sem er skipaður af Bolsonaro.

Forsetakosningar verða haldnar á næsta ári og enn sem komið er sýna kannanir að Bolsonaro bíður erfið barátta.

Samkvæmt gagnagrunni Johns Hopkins háskólans er vitað til þess að minnst 603.855 manns hafa dáið vegna Covid-19 í Brasilíu. Það er næst hæsta talan í heiminum en í Bandaríkjunum hafa 727.907 dáið.


Tengdar fréttir

Umfangsmikil mótmæli gegn Bolsonaro í Brasilíu

Tugir þúsunda komu saman í stærstu borgum Brasilíu í gær til að mótmæla yfirvöldum landsins og kalla eftir því að Jair Bolsonaro, forseti landsins, verði vikið úr embætti.

Í skurðaðgerð vegna fylgikvilla hnífstungu árið 2018

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, þarf mögulega í neyðarskurðaðgerð vegna stíflu í þörmum. Hann var lagður inn á hersjúkrahús til aðhlynningar í fyrradag eftir að hafa fundið til í maganum og vera með hiksta í meira en tíu daga.

Ástandið aldrei verið verra í Brasilíu

Dauðsföll af völdum Covid-19 heimsfaraldursins eru nú orðin fleiri en 500.000 í Brasilíu. Brasilía er með næst hæstu tíðni dauðsfalla í heiminum vegna faraldursins, á eftir Bandaríkjunum þar sem yfir 600.000 hafa látist.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×