Erlent

Ástandið aldrei verið verra í Brasilíu

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Yfir sjötíu þúsund ný tilfelli greinast af Kórónuveirunni daglega í Brasilíu.
Yfir sjötíu þúsund ný tilfelli greinast af Kórónuveirunni daglega í Brasilíu. Getty/Andre Coelho

Dauðsföll af völdum Covid-19 heimsfaraldursins eru nú orðin fleiri en 500.000 í Brasilíu. Brasilía er með næst hæstu tíðni dauðsfalla í heiminum vegna faraldursins, á eftir Bandaríkjunum þar sem yfir 600.000 hafa látist.

Nýlegt afbrigði veirunnar, Gamma afbrigðið eða brasilíska afbrigðið hefur geisað í landinu og víðar um heim á þessu ári. Síðan í mars hafa dauðsföll í landinu verið yfir 1.500 á dag. Þá greinast að meðaltali sjötíu þúsund ný tilfelli daglega.

Sérfræðingar telja að ástandið í landinu muni einungis versna með vetrinum sem hefst í næstu viku í Brasilíu, en aðeins um fimmtán prósent fullorðinna eru fullbólusett. Bráðamóttökur eru víða að nálgast þolmörk og er heilbrigðiskerfið í flestum stærstu borgum Brasilíu talið vera að hruni komið.

Forsetinn gerir lítið úr ástandinu

Forseti Brasilíu, Jair Bolsonaro hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir afstöðu sína og skort á aðgerðum til að hefta útbreiðslu veirunnar. Hann styður til að mynda ekki grímuskyldu eða útgöngubann og hefur þótt fullur efasemda um gagnsemi bólusetningar.

Forsetinn greindist sjálfur með veiruna síðasta sumar en kveðst ekki hafa orðið alvarlega veikur.

Þá hafa heilbrigðisráðherrar sem starfað hafa við hlið Bolsonaro ýmist verið reknir eða hrökklast úr starfi vegna ágreinings við forsetann um faraldurinn. Nú gegnir hjartalæknirinn Marcelo Queiroga embættinu og er sá fjórði á einu ári.

Bolsonaro er sakaður um að hafa ítrekað gert lítið úr alvarleika faraldursins og verið frekar umhugað um áhrif hans á efnahagslífið, heldur en þjóðina sjálfa. Þúsundir íbúar Brasilíu komu saman á laugardaginn til þess að mótmæla viðbrögðum hans og reka á eftir bólusetningum. Þingið rannsakar nú vinnubrögð forsetans og ríkisstjórnarinnar í faraldrinum.


Tengdar fréttir

Verður fjórði heil­brigðis­ráð­herrann á einu ári

Hjartalæknirinn Marcelo Queiroga mun taka við embætti heilbrigðisráðherra Brasilíu og verður hann sá fjórði til að gegna embættinu á einu ári. Ekki hafa jafnmargir látist frá upphafi faraldursins og í síðustu viku

Kalla eftir því að Bol­sonaro verði á­kærður fyrir em­bættis­glöp

Þúsundir hafa leitað út á götur Brasilíu til þess að mótmæla viðbrögðum Jair Bolsonaro, forseta landsins, og ríkisstjórn hans við kórónuveirufaraldrinum. Mótmælendur í höfuðborginni söfnuðust saman fyrir utan þinghúsið í gær og kölluðu eftir því að forsetinn verði ákærður fyrir embættisglöp.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.