Erlent

Forseti Brasilíu segir Johnson hafa falast eftir „neyðarsamningi“ um ákveðna matvöru

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bolsonaro og Johnson funduðu í New York í vikunni, þar sem síðarnefndi ræddi mikilvægi bólusetninga gegn Covid-19 við kollega sinn.
Bolsonaro og Johnson funduðu í New York í vikunni, þar sem síðarnefndi ræddi mikilvægi bólusetninga gegn Covid-19 við kollega sinn.

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, segir forsætisráðherra Bretlands hafa biðlað til hans um „neyðarsamkomulag“ vegna skorts á ákveðinni matvöru. Stjórnvöld í Bretlandi eru sögð hafa neitað því að ummælin eigi við rök að styðjast.

Skortur á vörubifreiðastjórum og verkamönnum í uppskerustörf, til viðbótar við skort á koldíoxíð til að slá út dýr fyrir slátrun og framleiða ís til að halda vörum ferskum, hafa orðið til þess að óttast er að vöruskortur myndist í aðdraganda jóla.

Olíurisinn BP gaf það út á dögunum að skortur gæti orðið á eldsneyti á einhverjum bensínstöðvum og þá sagði framkvæmdastjóri stórvörumarkaðskeðjunnar Iceland að ákveðnar vörur yrðu uppurnar eftir daga, fremur en vikur.

Stjórnvöld hafa hins vegar hvatt fólk til að sýna stillingu og sleppa því að hamstra, þar sem nóg væri til af matvöru og öðrum aðföngum.

Samkvæmt Guardian kom Bolsonaro inn á hina meintu beiðni frá Boris Johnson í vikulegu vefvarpi en þar sagði hann og Johnson hefðu fundað á þingi Sameinuðu þjóðanna í New York í vikunni, hefði síðarnefndi farið þess á leit að flytja inn ákveðna matvöru frá Brasilíu.

Einhverjir hafa gert úr því skóna að mögulega hafi Johnson rætt við Bolsonaro um kalkún fyrir jólin en Brasilía er þriðja stærsta framleiðsluland alifuglakjöts í heiminum. Samkvæmt vefsíðunni Poultry World fluttu Evrópuríkin inn 12,5 milljón tonn af fuglakjöti frá Brasilíu í fyrra.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.