Veður

Víða hvass­viðri eða stormur og gular við­varanir

Atli Ísleifsson skrifar
Vindaspáin fyrir klukkan níu. Hvassast verður í Öræfasveit, en varasamt verður fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind. Eru afmarkaðar samgöngutruflanir líklegar og fólk hvatt til að sýna aðgát.
Vindaspáin fyrir klukkan níu. Hvassast verður í Öræfasveit, en varasamt verður fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind. Eru afmarkaðar samgöngutruflanir líklegar og fólk hvatt til að sýna aðgát. Veðurstofan

Landsmenn mega búa sig undir norðaustanátt í dag þar sem víða verður hvassviðri eða stormur. Sums staðar getur þó orðið enn hvassara í vindstrengjum við fjöll.

Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að það verði rigning eða slydda norðan- og austanlands, og dálítil él þar seinnipartinn, en yfirleitt þurrt á Suður- og Vesturlandi.

Hiti verður á bilinu tvö til níu stig, en það kólnar smám saman í dag og í kvöld dregur úr vindi og frystir allvíða.

Gular viðvaranir eru enn í gildi á Breiðafirði, Vestfjörðum, Austfjörðum og á Suðausturlandi. Viðvörunin er í gildi á Suðausturlandi til klukkan 23 í kvöld, en þar gæti farið yfir fjörutíu metra á sekúndu í hviðum. Hvassast verður í Öræfasveit, en varasamt verður fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind. Eru afmarkaðar samgöngutruflanir líklegar og fólk hvatt til að sýna aðgát.

„Norðlæg átt 10-18 m/s á morgun, en það lægir á vestanverðu landinu með morgninum. Víða léttskýjað sunnan- og vestantil, en áfram dálítil él norðaustanlands. Hiti í kringum frostmark yfir daginn. Hægari vindur annað kvöld og þykknar upp vestanlands, en styttir jafnframt upp eystra.“

Gular viðvaranir eru í gildi.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag: Norðlæg átt 10-18 m/s, en lægir á V-verðu landinu með morgninum. Dálítil él NA-lands, en yfirleitt léttskýjað S- og V-til. Hiti í kringum frostmark yfir daginn. Vestan og suðvestan 5-13 um kvöldið og þykknar upp V-lands, en styttir upp eystra.

Á fimmtudag: Norðlæg eða breytileg átt 5-10 og stöku skúrir eða slydduél, en víða þurrt og bjart eftir hádegi. Norðvestan 8-15 og él við A-ströndina. Hiti um og yfir frostmarki, en kólnar síðdegis.

Á föstudag: Gengur í suðaustan 10-18 og fer að rigna S- og V-lands, hiti 2 til 7 stig. Hægari vindur og þurrt NA-til á landinu og hiti um eða undir frostmarki.

Á laugardag (fyrsti vetrardagur): Suðaustlæg átt og væta með köflum. Hiti 3 til 8 stig.

Á sunnudag: Norðaustlæg átt og rigning eða slydda, en þurrt um landið S-vert. Hiti 1 til 6 stig.

Á mánudag: Breytileg átt og þurrt að kalla, en rigning með köflum N- og A-lands. Hiti 2 til 8 stig.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×