Alls hafa 7.300 verið handtekin, eða handtökuskipun gefin út á hendur þeim, fyrir að taka þátt í að mótmæla valdaráni hersins frá því að herinn tók völd í Mjanmar í febrúar. Herinn hefur nú lofað því að hluta þeirra verði sleppt úr haldi og handtökuskipanir felldar niður. Þetta var tilkynnt af ríkissjónvarpinu í morgun en óvíst er hvenær föngunum verður sleppt.
Meðal þeirra sem eru í haldi hersins eru læknar, kjörnir stjórnmálamenn, mótmælendur og blaðamenn samkvæmt upplýsingum frá Samtökum pólitískra fanga í Mjanmar (AAPP). Í tilvikum þar sem hinir eftirlýstu hafa ekki fundist af hernum hafa ættingjar þeirra verið handteknir, þar á meðal börn.
Minnst 1.178 hafa fallið í áttökum við mjanmarska herinn frá því að hann tók völd, þar á meðal 131 í haldi. Þá hafa fregnir um pyntingar í fangelsum flogið hátt.
Frá því í vor hefur Samband Suðaustur-Asíuríkja leitt alþjóðlegar samningaviðræður við núverandi stjórnvöld í Mjanmar. Sambandið samþykkti aðgerðaáætlun með herforingjastjórninni í Apríl um hvernig væri hægt að koma á friði í landinu.
Meðal skilyrðanna sem sambandið setti var að Erywan Yusof, varautanríkisráðherra Brúnei, myndi fara fyrir hönd sambandsins til Mjanmar og leiða þar sáttaviðræður. Yusof afskrifaði ferðina í síðustu viku þegar herforingjastjórnin tilkynnti að hann fengi ekki að hitta Aung San Suu Kyi, lýðræðislega kjörinn leiðtoga landsins sem hefur verið í haldi hersins frá því í febrúar.
Sambandið ákvað í kjölfarið að yfirherforingi herforingjastjórnarinnar í Mjanmar, Min Aung Hlaing, fengi því ekki að taka þátt á næstu ráðstefnu sambandsins en Joe Biden Bandaríkjaforseti verður viðstaddur ráðstefnunni.