Erlent

Metfjöldi smitaðra og látinna í Rússlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Heilbrigðisstarfsmenn flytja eldri konu með Covid-19 á sjúkrahús í úthverfi Moskvu.
Heilbrigðisstarfsmenn flytja eldri konu með Covid-19 á sjúkrahús í úthverfi Moskvu. AP/Alexander Zemlianichenko

Yfirvöld í Rússlandi greindu í morgun frá því að metfjöldi manna hefði bæði smitast af Covid-19 og dáið vegna sjúkdómsins sem kórónuveiran veldur. Faraldurinn hefur náð nýjum hæðum í Rússlandi og er að reynast heilbrigðisstarfsmönnum erfiður.

31.299 greindust smitaðir í gær og 986 dó. Heilt yfir hafa 7.892.980 smitast af Covid-19 í Rússlandi, svo vitað sé og hafa 220.315 dáið. Moscow Times segir þó að frá því faraldurinn hófst hafi um 660 þúsund manns dáið, til viðbótar við meðaltal dauðsfalla á sama tímabili undanfarin ár.

Í fyrradag greindust 28.717 smitaðir og 984 dóu.

Mikhail Murashko, heilbrigðisráðherra Rússlands, sagði á þriðjudaginn að um það bil 235 þúsund af 255 þúsund sjúkrarúmum landsins væru í notkun. Um sex þúsund manns væru í öndunarvél.

TASS-fréttaveitan, sem er í eigu ríkisins, segir flesta hafa greinst í St. Pétursborg og í Moskvu. Þá segir fréttaveitan að í Rússlandi séu nú 734.909 virk smit.

Mikhail Mishustin, forsætisráðherra Rússlands, kvartaði á mánudaginn yfir því hve fáir Rússar hefðu bólusett sig. Rússum hefði verið gert mjög auðvelt að bólusetja sig en fáir hefðu gert það. Um 29 prósent Rússa eru fullbólusettir.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.