Erlent

Deila ekki bólu­efna­upp­skriftinni þrátt fyrir á­kall al­þjóða­stofnana

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Noubar Afeyan er stjórnarformaður Moderna og einn af stofnendum fyrirtækisins.
Noubar Afeyan er stjórnarformaður Moderna og einn af stofnendum fyrirtækisins. AP/Andrew Medichini

Bóluefnaframleiðandinn Moderna ætlar sér ekki að deila uppskriftinni að bóluefni sínu gegn kórónuveirunni. Stjórnarformaður Moderna segir fyrirtækið hafa komist að þeirri niðurstöðu að aukin framleiðsla Moderna á bóluefninu væri besta leiðin til þess að auka bóluefnaframboð á heimsvísu.

AP-fréttaveitan greinir frá þessu og segir stjórnarformanninn, Noubar Afeyan, hafi ítrekað loforð fyrirtækisins um að ganga ekki á höfundarrétt annarra bóluefnaframleiðenda við gerð síns bóluefnis.

„Við þurftum ekki að gera það. Við teljum þetta vera það rétta og ábyrga til að gera. Við viljum hjálpa heiminum,“ hefur AP eftir Afeyan.

Heilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna hefur áður þrýst á Moderna um að deila uppskriftinni að bóluefninu, þannig að fleiri geti hafist handa við að framleiða bóluefni. Afeyan segir hins vegar að fyrirtækið hafi sjálft metið hvort betra væri að deila uppskriftinni eða ekki, og komist að þeirri niðurstöðu að hægt væri að auka framleiðslu og afhenda milljarða skammta á næsta ári.

„Á næstu sex til níu mánuðum er áreiðanlegasta leiðin til þess að framleiða hágæða bóluefni á skilvirkan hátt að láta okkur um það,“ sagði hann. Þegar hann var spurður um bón Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um að uppskriftinni yrði deilt sagði hann að slíkar beiðnir byggðu á staðhæfingum um að Moderna gæti ekki framleitt nóg af bóluefni.

„En við getum það reyndar.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.