Erlent

Vill leggja meiri áherslu á að bæta líf þegna sinna

Samúel Karl Ólason skrifar
Kim Jong Un einræðisherra Norður-Kóreu.
Kim Jong Un einræðisherra Norður-Kóreu. AP/KCNA

Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, kallaði eftir því í gær að embættismenn sínir legðu meiri áherslu á að bæta líf íbúa landsins. Það væri nauðsynlegt vegna verulega slæms ástands efnahags landsins.

Þetta sagði Kim á hátíð þar sem haldið var upp á 76 ára afmæli Verkamannaflokks Norður-Kóreu. Kim varaði við því að framtíðin væri ekki björt.

Hagkerfi Norður-Kóreu hefur beðið verulega hnekki sem rekja má til viðskiptaþvingana og refsiaðgerða vegna kjarnorkuvopnaáætlunar ríkisins, auk þess sem ofsaveður hefur ítrekað komið niður á uppskeru í landinu. Ríkisstjórn Kim lokaði þar að auki landamærum ríkisins nánast alfarið vegna faraldurs kórónuveirunnar.

Sjá einnig: Hamfararigningar í kjölfar hitabylgju og þurrks í Norður-Kóreu

Samkvæmt frétt Yonhap-fréttaveitunnar, sem vitnar í ríkismiðil Norður-Kóreu, hvatt Kim embættismenn til að þjóna fólkinu eins og guð. Einnig væri nauðsynlegt að framfylgja fimm ára efnahagsáætlun Norður-Kóreu og bæta vandamál sem snúa að húsnæði og matvælum.

Hann sagði embættismenn ekki eiga að búast við eða óska eftir sérstakri meðferð og fríðindum. Allir þyrftu að vera sameinaðir í þeirri vinnu sem þjóðin stæði frammi fyrir.

Sjá einnig: Segja al­þýðuna miður sín yfir þyngdar­tapi Kim

Reuters fréttaveitan segir Kim ekkert hafa sagt um kjarnorkuvopnastefnu sína eða samskipti Norður-Kóreu við Suður-Kóreu og Bandaríkin.

Ráðamenn í Bandaríkjunum segja að slæmt ástand í Norður-Kóreu sé engum nema Kim og ríkisstjórn hans að kenna. Einræðisherrann noti sér þegna sína og brjóti á mannréttindum þeirra með því að nota allar auðlindir ríkisins til að byggja upp gereyðingarvopn sín og eldflaugar til að bera þau.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×