Enski boltinn

„Salah er betri en Messi og Ronaldo“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mohamed Salah hefur skorað í sjö leikjum í röð fyrir Liverpool.
Mohamed Salah hefur skorað í sjö leikjum í röð fyrir Liverpool. getty/Robbie Jay Barratt

Mohamed Salah er betri en Lionel Messi og Cristiano Ronaldo. Þetta segir Chris Sutton, fyrrverandi framherji Blackburn Rovers, Chelsea, Celtic og fleiri liða.

Salah var í miklu stuði þegar Liverpool og Manchester City gerðu 2-2 jafntefli í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn. Hann lagði fyrra mark Liverpool upp fyrir Sadio Mané og skoraði það seinna eftir mikinn einleik.

Salah hefur byrjað tímabilið frábærlega og er kominn með níu mörk í níu leikjum auk þriggja stoðsendinga.

„Í augnablikinu er hann betri en Messi og Ronaldo,“ sagði Sutton um Salah á BBC. Hann hrósaði Egyptanum fyrir stöðugleikann sem hann hefur sýnt undanfarin ár.

„Tölfræðin hans hefur verið mögnuð síðustu tímabil. Að gera það sem hann hefur gert í svona mörg ár sýnir hversu frábær hann er. Þú leitar alltaf að stöðugleika og hann stendur sig ár eftir ár á meðan aðrir gefa eftir.“

Samningur hins 29 ára Salahs rennur út 2023. Hann hefur ekki enn skrifað undir nýjan samning við Liverpool.

Rauði herinn er í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með fimmtán stig, einu stigi á eftir toppliði Chelsea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×