Enski boltinn

Segir að Salah sé besti leikmaður í heimi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mohamed Salah fagnar glæsimarki sínu gegn Manchester City.
Mohamed Salah fagnar glæsimarki sínu gegn Manchester City. getty/John Powell

Jamie Carragher segir að Mohamed Salah sé besti leikmaður heims um þessar mundir. Egyptinn átti stórleik þegar Liverpool og Manchester City gerðu 2-2 jafntefli í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Salah lagði fyrra mark Liverpool upp fyrir Sadio Mané og skoraði það seinna eftir mikinn einleik. Hann hefur skorað í sjö leikjum í röð og alls átta mörk á tímabilinu.

„Ég held að það sé enginn betri í heiminum um þessar mundir. Hann hefur verið frábær að undanförnu,“ sagði Carragher á Sky Sports eftir leikinn á Anfield í gær.

„Þú getur aldrei efast um það sem hann hefur gert fyrir Liverpool. En ég hef sjaldan séð hann jafn beittan og núna. Undanfarnar vikur hef ég talað um að hann sé einn af bestu leikmönnum sem hafa spilað fyrir Liverpool.“

Carragher hvetur stjórnarmenn Liverpool til að gera nýjan samning við Salah. Núgildandi samningur Egyptans rennur út sumarið 2023.

„Ég veit í hvaða stöðu Liverpool er í. Þeir hafa ekki sama fjárhagslega bolmagn og Manchester City. En núna er hann að spila manna best og þeir geta ekki dregið þetta og átt á hættu að missa Salah,“ sagði Carragher.

Salah kom til Liverpool frá Roma 2017. Hann hefur skorað 134 mörk í 212 leikjum fyrir félagið. Salah varð Evrópumeistari með Liverpool 2019 og Englandsmeistari 2020.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.