Townsend tryggði Everton jafntefli og fagnaði að hætti Ronaldo

Andros Townsend fagnaði vel og innilega þegar hann jafnaði metin fyrir Everton.
Andros Townsend fagnaði vel og innilega þegar hann jafnaði metin fyrir Everton. Clive Mason/Getty Images

Manchester United og Everton gerðu 1-1 jafntefli þegar að liðin mættust á Old Trafford í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Fyrri hálfleikur var nokkuð kaflaskiptur og bæði lið fengu ágætis færi til að taka forystuna. Fyrsta mark leiksins leit loksins dagsins ljós á 43 mínútu þegar að Bruno Fernandes lagði boltann á Anthony Martial sem kláraði færið vel framhjá Jordan Pickford í marki Everton.

Heimamenn sóttu stíft í seinni hálfleik og voru líklegri til að bæta við öðru marki sínu heldur en að Everton væri að fara að jafna leikinn.

Þrátt fyrir það voru það leikmenn Everton sem að skoruðu næsta mark, en þar var á ferðinni Andros Townsend sem batt endahnútinn á vel útfærða skyndisókn gestanna á 65. mínútu. Townsend sló svo á létta strengi og ákvað að herma eftir frægu fagni Cristiano Ronaldo sem var nýkominn inn á sem varamaður.

Gestirnir héldu svo að þeir væru að stela sigrinum þegar að Yerri Mina kom boltanum í netið, en eftir stutta myndbandsskoðun var hann réttilega dæmdur rangstæður.

Heimamenn í United sóttu stíft seinustu mínúturnar, en þurftu að lokum að sætta sig við 1-1 jafntefli.

Liðin eru nú bæði með 14 stig í öðru og þriðja sæti deildarinnar eftir sjö leiki. Liverpool situr á toppi deildarinnar, einnig með 14 stig, en hafa leikið einum leik minna.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira