Erlent

Dómari segir ekki glæpsamlegt að deila nærmyndum af kynfærum kvenna á klámsíðum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ákvörðun dómarans hefur verið harðlega mótmælt.
Ákvörðun dómarans hefur verið harðlega mótmælt. MUJERES EN IGUALDAD BURELA

Ákvörðun dómara í bænum Cervo á Spáni hefur vakið mikla reiði en hann hefur nú í annað sinn vísað frá máli er varðaði konur sem voru myndaðar án þeirrar vitundar þegar þær pissuðu á útihátíð. Myndskeiðunum var deilt á klámsíðum.

Um er að ræða í kringum 80 konur og stúlkur, sem neyddust til að pissa úti í hliðargötu vegna óviðunandi salernisaðstöðu þegar hátíðin A Maruxaina fór fram í bænum. Seinna kom í ljós að einhver hafði komið leyndum upptökubúnaði fyrir í götunni og deilt myndskeiðunum á netinu.

Myndefnið rataði á klámsíður og í sumum tilvikum var um að ræða nærmyndir af andlitum og kynfærum kvennanna.

Konurnar kærðu málið í fyrra og fóru fram á rannsókn. Sögðu þær meðal annars að viðkomandi, sem er enn óþekktur, hefði brotið gegn rétti þeirra til einkalífs. Dómari í bænum, Pablo Munoz Vázqez, ákvað hins vegar að vísa málinu frá og hefur nú staðfest þá ákvörðun.

Dómarinn byggði ákvörðun sína á því að þar sem konurnar hefðu pissað á almannafæri hefði sá sem gerði upptökurnar ekki gerst brotlegur við lög. Þá komst hann að þeirri undarlegu niðurstöðu að ekki væri um að ræða ásetning um að brjóta gegn „líkamlegri eða siðferðilegri andstöðu“ kvennanna.

Ein þeirra, sem BBC kallar einfaldlega Jenniffer, segir dómarann í raun vera að leggja blessun sína yfir það að upptökur séu gerðar af fólki á almannafæri og tekjur hafðar af því að deila upptökunum á klámsíðum.

Niðurstöðu dómarans hefur verið harðlega mótmælt af samtökum sem berjast fyrir jafnrétti. Þá hefur jafnréttisráðherrann Irene Montero kallað athæfið sem um ræðir hreint og klárt kynferðisofbeldi.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá BBC.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×