Erlent

Bandaríkin slaka á ferðabanni til landsins

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Frá JFK-flugvellinum í New York.
Frá JFK-flugvellinum í New York. Spencer Platt/Getty Images)

Yfirvöld í Bandaríkjunum munu frá og með nóvember næstkomandi slaka á ferðabanni til landsins sem verið hefur í gildi frá því í mars á síðasta ári.  Fullbólusettir íslenskir ferðamenn munu því að öllum líkindum geta ferðast til Bandaríkjanna á ný eftir langt hlé.

Reuters greinir frá og hefur eftir Jeff Zients, embættismanni sem heldur utan um viðbrögð yfirvalda í Bandaríkjunum við kórónuveirufaraldrinum. Hvíta húsið hefur einnig staðfest tíðindin.

Í frétt Reuters segir að Bandaríkin munu opna á ferðir fullbólusettra ríkisborgara Kína, Indlands, Bretlands og fjölda ríkja Evrópu. Fastlega má gera ráð fyrir að Ísland sé þar á meðal. Munu tilslakanirnar taka gildi snemma í nóvember. Zients segir að ekki sé búið að taka ákvörðun um hvaða bóluefni verði tekin gild í Bandaríkjunum, Sóttvarnarstofnun Bandaríkjanna muni ákveða það.

Þeir sem ferðast til Bandaríkjanna og eru ekki bandarískir ríkisborgarar þurfa að sýna fram á bólusetningu áður en ferðast er til landsins, auk neikvæðrar niðurstöðu úr Covid-19 prófi sem ekki er eldri en þriggja daga. Fullbólusettir farþegar þurfa ekki að fara í sóttkví við komuna til Bandaríkjanna.

„Nýja kerfið miðast við einstaklinga, fremur en frá hvaða löndum þeir koma og er þar af leiðandi sterkara kerfi,“ hefur fréttaveitan AP eftir Zients.

Ferðabann, með ákveðnum undantekningum þó, hefur verið í gildi fyrir ríkisborgara þessara landa og fleiri, frá og með í mars á síðasta ári þegar Donald Trump, þáverandi forseti Bandaríkjanna, kynnti þrjátíu daga ferðabann í upphafi kórónuveirufaraldursins, svo hefta mætti útbreiðslu veirunnar.

Ferðabannið sem er í gildi nú tekur fyrir að nær allir ríkisborgarar annarra landa en Bandaríkjanna sem dvalið hafa í tvær vikur í Bretlandi, hinum 26 Schengen ríkjum (þar með talið Íslandi), Írlandi, Kína, Indlandi, Suður-Afríku, Íran og Brasilíu ferðist til Bandaríkjanna.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.