Íslenski boltinn

KV fylgir Þrótti Vogum upp í Lengju­deildina

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Það var mikil gleði eftir að ljóst varð að KV myndi leika í Lengjudeildinni að ári.
Það var mikil gleði eftir að ljóst varð að KV myndi leika í Lengjudeildinni að ári. Hilmar Þór

KV tryggði sér í dag sæti í Lengjudeild karla í fótbolta á næstu leiktíð þökk sé 2-0 sigri á Þrótti Vogum. KV hefur nú farið upp um tvær deildir á tveimur árum. 

Mikil spenna var fyrir lokaumferðina í 2. deild sem fram fór í dag. Fyrir umferðina áttu bæði KV og Völsungur möguleika á að fara upp um deild. 

Sigur gegn Þrótti Vogum – sem höfðu þegar tryggt sér sæti í Lengjudeildinni sumarið 2022 – myndi tryggja KV upp en ef Vesturbæingar myndu tapa ættu Húsvíkingar möguleika með sigri gegn Njarðvík.

KV komst yfir snemma leiks. Þorsteinn Örn Bernharðsson átti þá aukaspyrnu inn á teig sem Patryk Hryniewicki stangaði af öllu afli í netið. Staðan 1-0 fyrir heimamenn og þannig var hún allt þangað til á 77. mínútu þegar varamaðurinn Askur Jóhannesson skallaði boltann í netið eftir fyrirgjöf Valdimar Daða Sævarsson.

Staðan orðin 2-0 og allt ætlaði um koll að keyra á KV Park, gervigrasvelli KR í Vesturbænum. Reyndust það lokatölur og KV er komið upp í næstefstu deild í annað sinn í stuttri sögu félagsins.

Völsungur vann 1-0 sigur í Njarðvík en það dugði ekki til. Önnur úrslit voru þau að Leiknir Fáskrúðsfjörður lagði Fjarðabyggð 2-0 á útivelli, Haukar og KF gerðu 2-2 jafntefli, Magni Grenivík vann Kára 3-1 og ÍR vann dramatískan 3-3 sigur á Reyni Sandgerði í Breiðholti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×