Erlent

Réttar­höld hafin í milljóna króna skaða­bóta­máli vegna Ischgl

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá Ischgl í Austurríki sem iðaði af lífi þegar kórónuveirufaraldurinn fór á fullt. Fólk frá öllum hornum Evrópu skemmti sér saman og hélt svo heim, margir hverjir smitaðir af kórónuveirunni.
Frá Ischgl í Austurríki sem iðaði af lífi þegar kórónuveirufaraldurinn fór á fullt. Fólk frá öllum hornum Evrópu skemmti sér saman og hélt svo heim, margir hverjir smitaðir af kórónuveirunni. Vísir/EPA

Réttarhöld hófust í dag í Vín þar sem til skoðunar er hve seint austurrísk yfirvöld brögðust við útbreiðslu kórónuveirunnar í skíðabæjum á borð við Ischgl. Málshefjendur segja hæg viðbrögð hafa orðið til þess að fjöldi fólks fékk Covid-19 og lét í sumum tilfellum lífið.

Ekkja og sonur 72 ára gamals Austurríkismanns krefjast eitt hundrað þúsund evra í skaðabætur, jafnvirði 15 milljóna íslenskra króna, í skaðabætur frá austurríska ríkinu. Um er að ræða prófmál fyrir hópmálsókn þar sem fleiri hundruð manns tilheyra sem veiktust eftir að hafa sýkst í kjölfar skíðaferðar til Ischgl í febrúar og mars 2020.

Neytendasamtökin í Austurríki styðja málið og segjast opin fyrir því að semja um skaðabæturnar.

Útbreiðsla veirunnar í Ischgl, sem er vinsæll skíðabær í Austurríki, og hæg viðbrögð eru talin ein helsta ástæða þess hve hratt veiran breiddist út um heim allan.

Sjálfstæð rannsókn sem ráðist var í í fyrra komst að þeirri niðurstöðu að yfirvöld í Týrol hefðu lokað skíðasvæðinu of seint eftir að ljóst mátti vera að hve alvarleg staðan var. Rannsakendur fundu þó ekki sönnunargögn þess efnis að þrýstingur pólitísks eða efnahagslegs eðlis hefðu spilað rullu.

Talið er að sextán Íslendingar hafi smitast af veirunni í bænum í upphafi faraldursins. Sumir þeirra eru hluti af hópmálsókninni. Fram hefur komið að íslensk sóttvarnayfirvöld vöruðu yfirvöld í Austurríki við stöðunni eftir að smit á Íslandi sýndu tengsl við skíðasvæðið.

„Yfirvöld brugðust með því að stöðva ekki fólk frá því að heimsækja eða yfirgefa Paznaun-dalinn, eða í það minnsta gefa út viðvörun,“ sagði Alexander Klauser, lögmaður stefnenda. Þannig hafi þúsundir yfirgefið svæðið óhindrað á meðan annar eins fjöldi mætti á svæðið ómeðvitað hvað gengi á.

„Apre-skíðakrárnar gátu haft opið dálítið lengur. Meira að segja þegar þeim var sagt að loka þá var ekki gengið á eftir þeim skipunum.“

Lögreglan hafi fylgst með mannlífinu á börunum án þess að grípa inn í.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×