Erlent

Blása á bábiljur Nicki Minaj um bóluefni og bólgin eistu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Nicki Minaj hefur mátt þola talsverða gagnrýni eftir ummæli sín á Twitter í vikunni.
Nicki Minaj hefur mátt þola talsverða gagnrýni eftir ummæli sín á Twitter í vikunni. Gilbert Carrasquillo/GC Images

Heilbrigðisráðherra Trínidad og Tóbagó er hreint ekki ánægður með bandarísku tónlistarkonuna Nicki Minaj, eftir að hún tísti um að frændi hennar í Trínidad hefð hætt við að láta bólusetja sig vegna þess að vinur hans sagðist vera getulaus eftir bólusetningu gegn Covid-19. Ráðherrann segir ekkert til í sögunni.

Minaj, sem er fædd í Trínidad, setti eftirfarandi tíst í loftið á mánudaginn, þar sem hún vísaði í að þessi ónefndi vinur frænda hennar væri getulaus vegna bólusetningar við Covid-19, eistu hans hefðu bólgnað svo mikið. Unnusta hans hafi meðal annars hætt við að giftast honum. Minaj er með um 23 milljónir fylgjenda á Twitter.

Söngkonan hefur mátt þola mikla gagnrýni vegna ummæla sinna, ekki síst í ljósi mikils átaks sem nú er í gangi í Bandaríkjunum til að fá Bandaríkjamenn til að bólusetja sig gegn Covid-19.

Einn af þeim sem er óhress með Minaj er Terrence Deyalsingh, heilbrigðisráðherra Trínodad og Tóbagó. Ef marka má frétt Reuters er hann ekki ánægður með að hafa þurft að eyða tíma í að leiðrétta Minaj.

„Ein af ástæðunum fyrir því að við gátum ekki svarað þessu strax er að við þurftum að athuga og ganga úr skugga um að hvort að það sem hún sagði væri rangt eða rétt. Því miður eyddum við mjög miklum tíma í gær í að eltast við þessa röngu staðhæfingu,“ sagði Deyalsingh.

Bætti hann því við að yfirvöld í Trínídad og Tóbagó hefðu ekki fundið  eitt tilfelli um bólgin eistu í kjölfar bólusetningar vegna Covid-19.

Dr. Anthony Fauci, sem segja má að gegni hlutverki Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis í Bandaríkjunum, virtist heldur ekkert vera alltof kátur með ummælin.

„Ég er ekki að kenna henni um neitt. En ég held að hún ætti að hugsa sig tvisvar um áður en hún dreifir upplýsingum sem eiga sér ekki stoð í raunveruleikanum,“ sagði Fauci.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.