Umfjöllun og viðtöl: Fylkir - Víkingur 0-1 | Bikar­meistararnir í undan­úr­slit eftir fram­lengdan leik

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Kári Árnason og félagar eru komnir í undanúrslit.
Kári Árnason og félagar eru komnir í undanúrslit. Vísir/Hulda Margrét

Víkingar eru komnir í undanúrslit í Mjólkurbikar karla í fótbolta og geta því enn varið bikarinn sem þeir unnu 2019. Sigurinn var ekki fallegur en það skiptir litlu máli. Lokatölur 1-0 eftir framlengdan leik þar sem sjálfsmark skildi liðin að.

Bæði lið mættu ákveðin til leiks. Víkingar byrjuðu betur fyrstu 10 mínúturnar og voru duglegir að keyra upp kantana og gefa fyrir en enginn leikmaður Víkings nógu vel staðsettur inn í teig. 

Við tók 20 mínútna kafli þar sem Fylkismenn voru með yfirhöndina og áttu varnarmenn Víkings sem og Ingvar, markmaður, í fullu fangi með að verjast. Þrátt fyrir góðar sóknir rataði boltinn ekki inn. Hálfleikstölur því 0-0. 

Það voru ekki liðnar tvær mínútur af seinni hálfleik þegar að Fylkismenn fá víti. Karl Friðleifur braut á Degi Dan og Dagur fær víti. Orri Hrafn fer á punktinn, setur boltann í vinstra hornið en Ingvar gerði sér lítið fyrir, kastar sér í sama horn og ver. 

Við tók kafli þar sem jafnræði var með liðunum og skiptust þau á að sækja á mark hvors annars. Það var spenna í loftinu og tímaspursmál hvenær mark myndi koma í þessum leik. Ekki gerðist það þegar venjulegum leiktíma var lokið. Leikurinn endaði því í framlenginu.

Það var ekki ein mínúta búin af framlengingunni þegar Adam Ægir sækir á mark Fylkismanna, boltinn fer í Orra Svein, sem kemur boltanum í eigið net. Staðan 1-0 fyrir Víking. 

Við tók kafli sem var sannkölluð háspenna - lífshætta. Fylkismenn ætluðu að jafna leikinn og það lá í loftinu að markið gæti komið þá og þegar. Það gerðist hinsvegar ekki, lokatölur 1-0 og Víkingar tryggðu sér sæti í undanúrslitum Mjólkurbikarsins. 

Afhverju vann Víkingur?

Þrátt fyrir að hafa ekki átt stjörnuleik í dag voru þeir mjög öflugir og sérstaklega í fyrri hálfleik. Þá voru þeir duglegir að keyra upp kantana og gefa fyrir þrátt fyrir að boltinn hafi ekki dottið inn. Vissulega hefði þetta getað endað öðruvísi ef boltinn hefði ekki endað á Orra í sjálfsmarkinu og átti Ingvar stjörnuvörslu í seinni hálfleik þegar hann varði víti. 

Hverjir stóðu upp úr?

Ingvar Jónsson, markmaður Víkings, fær 10/10 einkunn í dag. Það mæddi mikið á honum á köflum og gerði hann listilega vel að verjast. Þessi vítavarsla var geggjuð og hélt hann þeim inn í leiknum. 

Hvað gekk illa?

Eins og Fylkismenn áttu nú góð færi á köflum virtist boltinn ekki rata í netið. Það hjálpaði ekki þegar Ingvar varði vítið frá Orra og þetta sjálfsmark var dýrkeypt. 

Hvað gerist næst?

Víkingar eru komnir áfram í undanúrslit. Fylkir eru dottnir út og berjast nú fyrir lífi sínu í deildinni. 

Rúnar Páll: Svona er bara fótboltinn, það er ekki allt kosið í þessu

„Mér líður ágætlega. Þetta var frábær frammistaða hjá Fylkisliðinu í kvöld, þetta datt ekki okkar megin. Við vorum bara hrikalega góðir í kvöld og ég er stoltur af liðinu,“ sagði Rúnar eftir tap á móti Víking í kvöld. 

„Við lögðum upp með að spila góða vörn og nýta sóknina ágætlega. Við fengum fullt af fínum færum en við náðum ekki að koma boltanum yfir línuna. Því miður.“

Aðspurður hvað Rúnar hefði viljað sjá Fylki gera til að vinna leikinn hafði hann þetta að segja. 

„Ég hefði viljað að við hefðum skorað eitthvað úr þessum færum sem við fengum. Við fengum fín færi og vítaspyrnu sem við hefðum getað nýtt aðeins betur. Svona er bara fótboltinn, það er ekki allt kosið í þessu. Frammistaðan var frábær og það er það sem við getum tekið með okkur inn í næsta leik.“

Fylkir eru í fallbaráttu í Pepsi deild karla og þurfa svona frammistöðu til að eiga möguleika á að halda sér uppi. 

„Frammistaða leikmanna var frábær í kvöld og við þurfum að yfirfæra það yfir í leikinn á sunnudaginn sem er mikilvægasti leikur Fylkis á tímabilinu.“

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.