Enski boltinn

Ronaldo mun spila á morgun

Sindri Sverrisson skrifar
Cristiano Ronaldo er mættur á Old Trafford og því fylgja enn meiri kröfur um árangur, eins og Ole Gunnar Solskjær veit vel.
Cristiano Ronaldo er mættur á Old Trafford og því fylgja enn meiri kröfur um árangur, eins og Ole Gunnar Solskjær veit vel. Getty/Ash Donelon

Hafi einhver velkst í vafa um það hvort Cristiano Ronaldo komi við sögu með Manchester United gegn Newcastle á morgun þá ætti viðkomandi að hafa sannfærst eftir blaðamannafund Ole Gunnars Solskjær í dag.

Leikur Manchester United við Newcastle er fyrsti leikur þeirra rauðklæddu eftir endurkomu Ronaldos til United rétt fyrir lok félagaskiptagluggans um mánaðamótin.

Ronaldo skoraði tvö mörk í sigri gegn Írlandi í undankeppni HM 1. september og bætti þar með heimsmetið yfir flest mörk fyrir landslið en hann hefur skorað 111 mörk fyrir portúgalska landsliðið. Ronaldo fékk hins vegar gult spjald fyrir að fara úr treyjunni þegar hann fagnaði sigurmarki sínu og var þar með kominn í leikbann, svo hann var kominn fyrr en ella til Manchester-borgar.

„Hann er búinn að eiga góða viku með okkur hérna og hann mun alveg klárlega koma inn á völlinn á einhverjum tímapunkti, það er á hreinu,“ sagði Solskjær aðspurður hvort Ronaldo myndi spila á morgun.

Ronaldo, sem er 36 ára gamall, skrifaði undir samning til tveggja ára við United eftir komuna frá Juventus, með möguleika á eins árs framlengingu. Hann skoraði 118 mörk í 292 leikjum síðast þegar hann var hjá United, á sex ára tímabili, og vann til að mynda þrjá Englandsmeistaratitla og Evrópumeistaratitil áður en hann fór til Real Madrid árið 2009.

United varð síðast Englandsmeistari árið 2013, á kveðjutímabili Sir Alex Ferguson. Solskjær sagði í dag að nú þegar Ronaldo væri mættur til félagsins gætu leikmenn hvergi falið sig, og ljóst að stefnan er sett á titla.

„Við vitum auðvitað hvað hann hefur afrekað á sínum ferli en hann er kominn hingað til að afreka meira og hann er mættur til þess að gera kröfur,“ sagði Solskjær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×