Enski boltinn

Gætu spilað um helgina þrátt fyrir að hafa verið settir í bann

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Roberto Firmino og Gabriel Jesus eru tveir af þeim ellefu leikmönnum sem hafa verið settir í bann.
Roberto Firmino og Gabriel Jesus eru tveir af þeim ellefu leikmönnum sem hafa verið settir í bann. Nelson Almeida-Pool/Getty Images

Þeir leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar sem ferðuðust ekki í landsliðsverkefni til landa á rauðum lista bresku ríkisstjórnarinnar, þrátt fyrir að hafa verið kallaðir inn í landsliðshópinn, hafa verið settir í fimm daga bann af FIFA. Þrátt fyrir það gætu þeir spilað um helgina.

Þeir leikmenn sem voru kallaðir inn í hóp Brasilíu, Mexíkó, Paragvæ og Síle voru settir í fimm daga bann af Alþjóðaknattspyrnusambandinu, FIFA.

Alls hefur þetta áhrif á ellefu leikmenn úr átta liðum, þar á meðal bæði Manchester liðin, sem og Liverpool.

Forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar vinna nú að lausn á þessu máli, og Richard Masters, framkvæmdastjóri deildarinnar, segir að þessi máli gætu verið leyst fyrir helgina.

Ásamt því að missa af leikjum helgarinnar gætu Thiago Silva, varnarmaður Chelsea, og Fred, miðjumaður Manchester United, misst af opnunarleikjum liðanna í Meistaradeild Evrópu ef banninu verður ekki aflétt.

Framherji Everton, Richarlison, hefur þó fengið undanþágu frá banninu, en hann kom ekki til móts við brasilíska liðið í þessum landsleikjaglugga. Ástæða þess að knattspyrnusamband Brasilíu bað ekki um að Richarlison yrði settur í bann er sú að hann lék með liðinu á Ólympíuleikunum, þrátt fyrir það að engar reglur segðu til þess að hann væri skyldugur til þess.

Eins og áður segir gæti bannið haft áhrif á fjölda leikmanna, en liðin geta þó huggað sig við það að ef þessir leikmenn hefðu farið í landsliðsverkefni til landa á rauðum lista bresku ríkisstjórnarinnar, þá hefðu þeir þurft að fara í tíu daga sóttkví við komuna aftur til landsins.


Tengdar fréttir

FIFA biður um undanþágu fyrir leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar

Gianni Infantino, forseti alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA, hefur beðið Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, um undanþágu frá sóttkví fyrir leikmenn ensku úrvlsdeildarinnar svo að þeir geti tekið þátt í landsliðsverkefnum í byrjun næsta mánaðar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.