Enski boltinn

Engin mynd­bands­dómgæsla í úr­vals­deild kvenna

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Emma Hayes, þjálfari Englandsmeistara Chelsea, vill sjá myndbandsdómgæslu í ensku úrvalsdeildinni.
Emma Hayes, þjálfari Englandsmeistara Chelsea, vill sjá myndbandsdómgæslu í ensku úrvalsdeildinni. Catherine Ivill/Getty Images

Emma Hayes, þjálfari Englandsmeistara Chelsea, vill sjá myndbandsdómgæslu tekna upp í úrvalsdeild kvenna í fótbolta á Englandi eftir umdeild mark Arsenal í 3-2 sigri gegn hennar liði um liðna helgi.

Enska úrvalsdeildin hófst á stórleik Chelsea og Arsenal. Leikurinn var frábær skemmtun en Englandsmeistarar Chelsea lutu í gras, lokatölur 3-2 Arsenal í vil. 

Hayes var ekki sátt með markið sem Beth Mead skoraði fyrir Arsenal í leiknum og taldi að það hefði ekki fengið að standa ef myndbandsdómgæsla, VAR, væri notuð í úrvalsdeild kvenna líkt og úrvalsdeild karla á Englandi.

Samkvæmt frétt Sky Sports er enska knattspyrnusambandið ekki á þeim buxunum að setja upp samskonar kerfi og þekkist karla megin. Hayes finnst það skrítið sökum þess að umfjöllun um deildina hefur aldrei verið meiri.

„Með því að setja leikina okkar á Sky fær það fólk til að spyrja sig af hverju það er ekki VAR á þessum leikjum. Við erum að gera lítið úr leiknum okkar.“

„Við erum orðin vön VAR og marklínutækni, að það sé ekki til staðar í kvennaboltanum lætur mér líða eins og annars flokks þjóðfélagsþegn,“ sagði Hayes í viðtali eftir leik.

Ástæðan sem gefin er fyrir því að ekki sé hægt að setja upp VAR í úrvalsdeild kvenna sé sú að þar spili liðin flest á heimavöllum karlaliða sem eru í National-deildinni, fimmtu efstu deild Englands. Þar sé einfaldlega ekki aðstaða til að setja VAR upp.

Samkvæmt Sky telja félögin og deildin sjálf að kostnaður við uppsetningu VAR of mikill á þessu stigi þróunar kvennaboltans í Englandi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.