Erlent

Hattur með erfða­efni Napóleons til sölu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Hattur úr safni Napóleons Bónaparte. Þetta er ekki hatturinn sem verið er að selja.
Hattur úr safni Napóleons Bónaparte. Þetta er ekki hatturinn sem verið er að selja. Getty/Pierre Suu

Hattur sem fannst nýlega og var í eigu franska keisarans Napóleons Bónaparte er nú til sýningar í uppboðshúsinu Bonhams í Hong Kong. Erfðaefni keisarans fannst inni í hattinum og er því talið nær öruggt að keisarinn hafi borið hattinn á höfði sér.

Hatturinn verður fluttur frá Hong Kong á næstu vikum til Parísar og þaðan til Lundúna, þar sem hann verður settur á uppboð þann 27. október næstkomandi.

Núverandi eigandi hattsins, sem er tvíhyrndur eins og hattarnir sem má sjá keisarann bera á flestum málverkum af honum, keypti hattinn hjá litlu þýsku uppboðshúsi fyrir nokkru síðan. Þá var það ekki vitað að hatturinn hafi verið í eigu Napóleons.

Eigandinn er sagður hafa grunað að hatturinn hafi tilheyrt keisaranum þegar hann fann áletrun inni í hattinum sem benti til þess að Napóleon hafi átt hann. Þá hafi rannsóknir á hattinum bent til að hann væri akkúrat nógu gamall til að geta haft tilheyrt Napóleon.

Ráðist var í ýmsar prófanir á hattinum eftir að núverandi eigandi hans keypti hattinn. Fimm hár fundust inni í honum, sem síðan voru rannsökuð og í ljós kom að hárin samræmdust erfðaefni keisarans.

Hatturinn hefur verið verðlagður á bilinu 100.000 til 150.000 pund, eða 17-26 milljónir króna. Uppboðssérfræðingar telja það þó mjög hógvært mat, en aðrir hattar sem sannreynt hefur verið að tilheyrt hafi keisaranum hafa selst fyrir allt að eina milljón punda, eða um 176 milljónir íslenskra króna.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.