Liðin mættust á Selfossi í kvöld en Valdimar Jóhannsson kom heimamönnum þar yfir eftir hálftímaleik. Portúgalinn Telmo Castanheira jafnaði fyrir gestina úr Vestmannaeyjum undir lok fyrri hálfleiks og 1-1 stóð í hléi.
Þegar aðeins tvær mínútur voru liðnar af síðari hálfleiknum kom Guðjón Pétur Lýðsson ÍBV 2-1 yfir og þá tvöfaldaði Breki Magnússon forystu þeirra fjórum mínútum síðar, á 51. mínútu. 3-1 stóð fram á 89. mínútu þegar Gonzalo Zamorano innsiglaði 4-1 sigur Eyjamanna.
ÍBV er eftir sigurinn með 41 stig eftir 18 leiki í öðru sæti deildarinnar, tíu stigum á eftir toppliði Fram sem hefur þegar tryggt sæti sitt í efstu deild. Eyjamenn hafa leikið einum leik færra en Framarar, sem og Kórdrengir, sem berjast við ÍBV um annað sætið. Kórdrengir eru fjórum stigum á eftir ÍBV, með 37 stig eftir 19 leiki í þriðja sæti.
Selfoss er með 21 stig í níunda sæti og eru Selfyssingar öruggir frá falli þar sem þeir eru tíu stigum á undan Þrótti sem er í efra fallsætinu, en Þróttarar get mest fengið níu stig úr síðustu þremur leikjum sínum.
Jafnt í Grindavík
Einn leikur var á dagskrá í Lengjudeild kvenna í fótbolta í kvöld. Grindavík og HK skildu þar jöfn 1-1 í Grindavík í fyrsta leik sautjándu og næst síðustu umferðar. Bæði lið eru hluti af gríðarjafnri botnbaráttu deildarinnar.
Grindavík er með 17 stig í sjötta sæti deildarinnar, stigi á undan HK sem er ásamt Gróttu með 16 stig í sætunum fyrir neðan. ÍA er í efra fallsæti deildarinnar með 14 stig og geta þau fjögur lið því öll fallið úr deildinni.